Erlent

Mikill viðbúnaður fyrir mótmælin í dag

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Koma upp myndavél til að fylgjast með Gulu vestunum.
Koma upp myndavél til að fylgjast með Gulu vestunum. Nordicphotos/AFP
Gulu vestin, mótmælendurnir sem hafa undanfarnar helgar safnast saman og mótmælt ríkisstjórn Emmanuels Macron Frakklandsforseta, mæta aftur til leiks í París í dag. Um síðustu helgi breyttust mótmælin í óeirðir. Hundruð voru handtekin, á annað hundrað særðust og mikið eignatjón varð. Þótt Macron hafi orðið við upphaflegri kröfu Gulu vestanna, að hætta við skattahækkun á eldsneyti, hefur mótmælunum í dag ekki verið aflýst. Enda snúast þau í auknum mæli um stjórnarhætti Macrons og ríkisstjórnarinnar eins og þeir leggja sig.

Mikill viðbúnaður er í höfuðborginni vegna mótmælanna. Edouard Philippe forsætisráðherra greindi frá því í gær að um 89.000 lögregluþjónar yrðu kallaðir út víðs vegar um Frakkland, þar af 8.000 í París, og að brynvarðir bílar yrðu notaðir í höfuðborginni. Þá hefur öryggismyndavélum verið komið fyrir.

Helstu kennileitum Parísar hefur verið lokað eða þau girt af. Þá hefur lögregla eindregið hvatt eigendur verslana og veitingastaða við Champs-Elysees til þess að skella í lás. Knattspyrnuleikjum hefur aukinheldur verið slegið á frest.

Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands, sagði í gær að mótmælin hefðu getið af sér skrímsli. Hann varaði við því að öfgafólk gæti komið sér fyrir innan raða mótmælenda og valdið usla. „Ég hef enga samúð með þeim sem misnota örvæntingu þjóðarinnar,“ sagði Castaner við blaðamenn.




Tengdar fréttir

Undirbúa sig fyrir frekari mótmæli

Parísarbúar undirbúa sig nú fyrir frekari mótmæli og óeirðir um helgina og hefur ríkisstjórn Frakklands varað sérstaklega við því.

Hætta við skattahækkunina

Frönsk stjórnvöld hafa ákveðið að hætta við fyrirhugaða díselskattshækkun sem leitt hefur til hatrammra fjöldamótmæla í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×