Innlent

Þessi risi er að koma til Íslands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hann er nærri 400 tonn að þyngd og er nú um borð í hollenska flutningaskipinu Happy Dover. Skipið kom að ströndum Íslands í dag frá Gdynia í Póllandi og lagðist að bryggju í Straumsvík á tíunda tímanum í kvöld. 

Farmurinn er risakrani sem álver Rio Tinto, ÍSAL, er að fá nýjan til landsins. Kaupverðið er um 1,3 milljarðar króna. 

Kraninn er sérhæfður til löndunar á súráli. Honum er ætlað að leysa af fimmtíu ára gamlan súrálskrana, sem þjónað hefur Straumsvíkurhöfn frá upphafi.

Áformað er að krananum verði skipað á land í Straumsvík á morgun og verður hafist handa við uppskipun í birtingu í fyrramálið. Að sögn Bjarna Más Gylfasonar, upplýsingafulltrúa ISAL, má gera ráð fyrir að vinnan verði í gangi meira og minna á morgun og hugsanlega fram á sunnudag.

Samtök pólska skipasmíðaiðnaðarins létu gera þetta 85 sekúndna myndband af því þegar ferlíkið var híft um borð í skipið í Gdynia fyrr í vikunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×