Erlent

Óttast um líf sitt eftir að hafa orðið fyrir taugaeitrinu í Salisbury

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumaður á vettvangi eftir að Rowley og Sturgess komust í snertingu við taugaeitrið.
Lögreglumaður á vettvangi eftir að Rowley og Sturgess komust í snertingu við taugaeitrið. Vísir/Getty
Breskur karlmaður sem komst í snertingu við taugaeitrið Novichok sem talið er hafa verið notað til að reyna að myrða rússneskan fyrrverandi njósnara í bænum Salisbury óttast að hann verði látinn innan tíu ára. Hann segist eiga erfitt með gang og sjón.

Tæpum fjórum mánuðum eftir að Sergei Skrípal og dóttir hans Júlía fundust meðvitundarlítil á bekk í bænum Salisbury á Englandi fyrr á þessu ári veiktust Charlie Rowley og Dawn Sturgess heiftarlega af völdum sama taugaeiturs. Sturgess lést á sjúkrahúsi í júlí.

Rowley segir við breska blaðið Sunday Mirror að þó að hann sé laus af sjúkrahúsi telji hann sig ekki óhultan.

„Ég er dauðhræddur við framtíðina. Læknar vita einfaldlega ekki hver langtímaáhrifin gætu orðið,“ segir Rowley sem er 45 ára gamall. Hann segist einn örfárra í heiminum sem hafi lifað það af að komast í snertingu við sovéska taugaeitrið.

Veikindin hafi lagst þungt á hann. Hann óttist að eitrið gæti dregið hann til dauða fái hann svo mikið sem kvefpest. Hann hafi íhugað sjálfsvíg og hafi engan stuðning fengið frá yfirvöldum, að því er BBC hefur upp úr viðtalinu við Sunday Mirror.

Bresk stjórnvöld hafa sakað rússnesk stjórnvöld um að hafa reynt að ráða Skrípalfeðginin af dögum með eitrinu. Því hafa Rússar harðneitað. Lögreglan telur að Rowley og Sturgess hafi ekki verið skotmörk heldur hafi þau komist í snertingu við afganginn af eitrinu sem morðingjarnir hafi losað sig við af skeytingarleysi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×