Erlent

Saka Rússa um að hafa siglt á úkraínskan bát við Krímskaga

Atli Ísleifsson skrifar
Úkraínsku skipin voru á leið til hafnarborgarinnar Mariupol.
Úkraínsku skipin voru á leið til hafnarborgarinnar Mariupol. Getty/Sean Gallup
Stjórnvöld í Úkraínu hafa sakað Rússa um að hafa vísvitandi siglt á úkraínskan dráttarbát undan strönd Krímskaga.

Í frétt BBC segir að spenna milli ríkjanna hafi aukist eftir að Úkraínustjórn sakaði Rússa um að hafa ráðist með þessum hætti á einn þriggja úkraínskra báta á siglingu í Asovhafi á leið til Mariupol.

Í yfirlýsingu frá úkraínska hernum segir að skemmdir hafi verið unnar á dráttarbátnum Yana Kapu, meðal annars vél, handrið og skrokk skipsins.

Ögrandi aðgerðir Úkraínumanna

Rússar hafa svarað því til að úkraínsku bátarnir hafi verið á rússnesku hafsvæði og að Úkraínumenn hafi gerst sekir um „ögrandi aðgerðir“. Hafi áhafnir í úkraínsku herskipunum Berdyansk og Nikopol ætlað sér að efna til átaka á svæðinu.

Úkraínski hersinn segir hins vegar að rússneska hernum hafi áður verið gert viðvart um fyrirhugaða siglingu skipanna til borgarinnar Mariupol og að Rússar hafi með þessu gerst brotlegir við hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Um 10 þúsund fallið



Asovhaf er að finna austur af Krímskaga sem Rússar innlimuðu árið 2014. Rússar og Úkraínumenn hafa deilt harkalega á síðustu árum eftir að aðskilnaðarsinnar, sem styðja rússnesk stjórnvöld, lýstu yfir sjálfstæði héraðanna Donetsk og Luhansk í austurhluta Úkraínu árið 2014. Rússar höfðu þá skömmu áður innlimað Krímskaga. Áætlað er að um 10 þúsund manns hafi fallið í átökunum.

Úkraínumenn og vesturlönd hafa sakað Rússa upp að sjá aðskilnaðarhópunum fyrir hermönnum og vopnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×