Erlent

Forseti Úkraínu vill koma á herlögum í landinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu.
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu. Vísir/EPA
Forseti Úkraínu, Petro Poroshenko, segist ætla að leggja til við úkraínska þingið á morgun  að herlög verði sett eftir að rússneski herinn réðist á og tók yfir þrjú skip á vegum úkraínska hersins nærri Svartahafinu í dag.

Herlögin yrðu sett vegna hernaðarástands en með þeim yrðu ákvæði venjulegra laga og stjórnarskrár, einkum um persónu- og eignaréttindi, afnumin um stundarsakir á hættutímum.

Um var að ræða tvö lítil herskip og dráttarbát á vegum úkraínska sjóhersins sem ætluðu sér til Asovshafsins í gegnum Kerch-sundið þegar för þeirra var stöðvuð af rússneska hernum.

Talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, Maria Zakharova, sagði Úkraínumenn hafa hegðað sér eins og stigamenn í Kerch-sundinu. Segir hún Úkraínumenn hafa ögrað Rússum fyrst með því að sigla nærri þeirra hafsvæði, síðar hótað valdbeitingu og því næst sakað Rússa um yfirgang.

Blaðamaður BBC í Úkraínu, Jonah Fisher, segir forseta Úkraínu styðja að herlög verði sett í landinu en það veki upp spurningar um kosningar í landinu í mars næstkomandi og hvort þeim verði mögulega seinkað.

Hann bendir á að það hafi ekki verið gert þegar spennan var sem mest á milli ríkjanna árið 2014 og 2015. 

Poroshenko sagði á fundi herráðs Úkraínu í kvöld að aðgerðir Rússa hefðu verið tilefnislausar og óðar.

Blaðamaðurinn Christopher Miller sagði það mikið högg fyrir úkraínska sjóherinn að missa þessi skip, um væri að ræða þriðjung af vopnuðum flota hersins.

Spenna undan ströndum Krímskaga hafa stigmagnast undanfarna mánuði.

Samkvæmt milliríkjasamnings þjóðanna tveggja frá árinu 2003 þá deila þær yfirráðum yfir Kerch-sundinu og Asovshafinu. Rússar hófu nýverið að þó eftirlit með öllum skipum sem sigla til eða frá úkraínskum höfnum nærri svæðinu.

Það að Rússar hafi tekið yfir skipin þrjú og að menn hafi særst í átökum er talin mikil stigmögnun á spennu milli landanna. Úkraínumenn segja sex hafa særst í átökum en Rússar vilja meina að þrír hafi særst.

Rússar hertóku Krímskaga árið 2014 og hefur mikil spenna verið á milli ríkjanna vegna þeirrar aðgerðar.


Tengdar fréttir

Rússar loka fyrir Asovshaf

Rússar hafa brugðist við ásökunum Úkraínu með því að loka fyrir umferð um Kerchsund




Fleiri fréttir

Sjá meira


×