Erlent

Demókratar tilnefna Nancy Pelosi til þingforseta

Kjartan Kjartansson skrifar
Pelosi virtist glöð í bragði eftir fundinn þar sem demókratar greiddu atkvæði um hvert þingforsetaefni þeirra ætti að vera.
Pelosi virtist glöð í bragði eftir fundinn þar sem demókratar greiddu atkvæði um hvert þingforsetaefni þeirra ætti að vera. Vísir/EPA
Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrataflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, var kjörin þingforsetaefni hans í atkvæðagreiðslu í dag. Hópur róttækari þingmanna lýsti andstöðu við að Pelosi yrði tilnefnd til þingforseta en enginn bauð sig fram gegn henni.

Pelosi er 78 ára gömul og hefur setið á þingi fyrir Kaliforníu frá 1987 og varð leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni árið 2003. Hún varð fyrsta og eina konan til að gegna embætti forseta fulltrúadeildarinnar árið 2007.Eftir að demókratar misstu meirihluta sinn árið 2011 hélt hún áfram að leiða þingflokkinn.

Allir þingmenn fulltrúadeildarinnar kjósa um þingforseta þegar nýtt þing kemur saman í byrjun næsta árs. Demókratar unnu meirihluta í þingkosningunum fyrr í þessum mánuði og hafa að minnsta kosti 233 af 435 sætum þar. Pelosi þarf 218 atkvæði til að ná kjöri sem þingforseti.

Repúblikanar hafa gert Pelosi að sérstökum skotspóni í kosningabaráttum um allt land. Sumir demókratar töldu að hún væri dragbítur á flokknum af þeim sökum. Breska ríkisútvarpið BBC segir að 32 þingmenn demókrata hafi greitt atkvæði gegn Pelosi í dag.

Kjósi allir þingmenn repúblikana gegn henni gætu sautján til átján þingmenn demókrata fellt hana í kosningunni.

Embætti forseta fulltrúadeildarinnar er eitt það valdamesta í bandarískum stjórnmálum. Þingforsetinn er þriðji í röð handhafa forsetavalds, á eftir varaforsetanum. Það hefur þó aldrei gerst í sögu Bandaríkjanna að þingforsetinn þurfi að fara með vald forseta.


Tengdar fréttir

Útlit fyrir miklar deilur næstu tvö árin

Repúblikanaflokkurinn hefur bætt við nauman meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings og Demókratar hafa tryggt sér meirihluta í fulltrúadeildinni.

Washington undirbýr sig fyrir stríð

Stjórnmála- og embættismenn í Washington DC undirbúa sig nú fyrir pólitískt stríð í kjölfar yfirtöku Demókrata á fulltrúadeild Bandaríkjaþings og brottreksturs Jeff Sessions, dómsmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×