Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Selfoss 30-26 │Haukarnir fyrstir til að klára Selfoss

Svava Kristín Grétarsdóttir í Schenkerhöllinni skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. vísir/daníel
Haukar unnu öflugan fjögurra marka sigur á Selfossi á Ásvöllum í kvöld, 30-26. Haukar eru fyrsta liðið til að vinna Selfyssinga á tímabilinu og deila liðin nú toppsæti deildarinnar með FH-ingum einnig, öll með 12 stig. Heimamenn leiddu í hálfleik með þremur mörkum, 16-13.

Haukar byrjuðu leikinn betur, þetta var hraður leikur en Selfyssingum tókst illa að skora. Eftir fyrsta stundarfjórðuginn var staðan 8-4, heimamönnum í vil og Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, tók þá leikhlé.

Það hafði lítil áhrif á leik Selfyssinga sem reyndu að spila manni fleiri í sókninni, en það var allt stöngin út hjá þeim. Haukar héldu áfram að spila vel og bættu í forystuna sem var þegar mest lét, 8 mörk, 14-6.

Það var svo á 23. mínútu sem gestirnir vöknuðu og mættu til leiks, svöruðu þá með 0-6 kafla og staðan orðin 14-12. Það var alltaf vitað mál að Selfyssingar væru ekki búnir að gefast upp, spurningin var hreinlega hvenær kemur áhlaupið frá þeim. Munurinn var ekki nema þrjú mörk í hálfleik, 16-13.

Fyrstu 10 mínútur síðari hálfleiks voru rólegar. Selfyssingar hægðu vel á leiknum og voru aftur dottnir niður á byrjunarreit þrátt fyrir frábæran lokakafla í fyrri hálfleik. Haukar náðu að halda gestunum í ágætri fjarlægð en eins og við var að búast þá gáfust Selfyssingar ekki upp.

Þeir héldu áfram og allir biðu eftir hinni frægu endurkomu sem þeir eru hvað þekktastir fyrir. Þegar fimm mínútur voru til leiksloka skoraði Selfoss tvö mörk í röð og minnkaði leikinn niður í tvö mörk, 27-25. Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var fljótur að stoppa það áhlaup við fæðingu og tók leikhlé.  

Það leikhlé skilaði sér, ekkert varð af endurkomu Selfyssinga og Haukar lönduðu fyrsta sigrinum á toppliðinu. 30-26 urðu lokatölur á Ásvöllum, sanngjarn sigur Hauka.

Daníel Þór Ingason var stórkostlegur í kvöld.vísir/daníel
Af hverju unnu Haukar?

Haukar mættu tilbúnir til leiks, spiluðu frá fyrstu mínútu frábæran varnarleik og voru heilt yfir góðir sóknarlega. Þeir duttu aðeins niður undir lokin á fyrri hálfleiks en voru stöðugir í seinni hálfleik og náðu að halda Selfyssingum í góðri fjarlægð. 

Hverjir stóðu upp úr?

Daníel Þór Ingason átti mjög góðan leik, skoraði 10 mörk úr 11 skotum. Grétar Ari Guðjónsson steig svo upp á besta tíma og lokaði markinu í seinni hálfleik. Það voru svo margir sem áttu góðan leik í liði Hauka, Tjörvi Þorgeirsson var að vanda öflugur og hornamennirnir, Orri Freyr Þorkelsson og Halldór Ingi Jónasson áttu báðir góðan leik í kvöld. 

Í liði Selfoss var það einna helst Haukur Þrastarson sem var hættulegur, en það var eins og við var að búast. Hann var markahæstur með 6 mörk en Einar Sverrisson á eftir honum með 5 mörk. Sölvi Ólafsson átti fína innkomu eftir að Pawel Kiepulski fór meiddur af velli, heilt yfir ágætis markvarsla frá þeim í kvöld. 

Hvað gekk illa? 

Sóknarleikurinn frá a-ö gekk illa hjá Selfossi í kvöld. Það var aðeins þessi 7 mínútna kafli undir lok fyrri hálfleiks sem var góður hjá gestunum. Heilt yfir voru þeir hægir, fyrirsjáanlegir og alls ekki ógnandi í kvöld. Þeim vantaði vissulega Elvar Örn Jónsson í kvöld, það er stórt skarð að fylla en hvort það sé eina ástæðan fyrir slökum sóknarleik er erfitt að segja til um. 

Hvað er framundan? 

Í næstu umferð eiga Haukarnir erfitt verkefni er þeir mæta Aftureldingu í Mosfellsbæ en Selfoss fær Fram í heimsókn. Selfyssingar eiga þó töluvert erfiðara verkefni fyrir höndum um helgina, þeir halda til Póllands og mæta þar KS Azoty-Pulawy í þriðju umferð EHF-bikarsins á laugardaginn kemur.

Gunnar: Hrikalega sterkt að vinna Selfoss

„Ég er hrikalega ánægður með þennann sigur í kvöld“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka. 



„Mér fannst við spila frábærlega vel í kvöld, varnar- og sóknarleikurinn. Við skoruðum 30 mörk í kvöld og leystum allar þeirra varnir sem þeir spiluðu á móti okkur“ 

Haukar spiluðu frábæran handbolta í 50 mínútur í kvöld, það var aðeins 10 mínútna kafli undir lok fyrri hálfleiks þar sem heimamenn gáfu eftir og Selfyssingar komust inní leikinn.  

„Það kom kafli í fyrri hálfleik þar sem við duttum niður og þeir náðu að nýta sér það. En við náðum að recovera og klára þetta í seinni hálfleik“ sagði Gunnar, ánægður með leik sinna manna í kvöld en hann óttaðist allan tímann áhlaup frá Selfyssingum

„Já ég meina, þetta er Selfoss. Þeir lifa fyrir þessi áhlaup og ég var ekkert í rónni. Ég vildi hafa meiri mun hérna á síðustu 10 mínútunum en var því ég vissi að þetta yrði erfitt. Selfoss kemur alltaf með áhlaup á síðustu 10 en við náðum að klára þá núna.“

„Það var hrikalega sterkt að vinna Selfoss í kvöld, þetta er fyrsti tapleikurinn þeirra í vetur. Deildin er sterk og það er stutt á milli þess að vera efstir eða í 5. sæti. Þessi leikur snérist um efsta sætið og það var hrikalega mikilvægt að vinna“ sagði Gunnar að lokum 

 

Patrekur var líflegur sem fyrr á hliðarlínunni.vísir/daníel
Patrekur: Verður nákvæmlega eins ef ekki verra á laugardaginn

„Við vorum lélegir sóknarlega, vorum að fara hrikalega illa með færin, sérstaklega í fyrri hálfleik, vorum 14-6 undir,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við Vísi eftir tap gegn Haukum í kvöld.

„Haukarnir voru sterkir, voru að skora 8 mörk af þessum 16 úr hraðaupphlaupum í fyrri, vörnin var allt í lag hjá okkur og markvarslan í heildan góð en Grétar vann þennann leik fyrir þá. Við komumst nálægt þeim en ekki nóg til að vinna þá.“

Eftir gott áhlaup undir lok fyrri hálfleiks slökuðu Selfyssingar aftur á í upphafi síðari hálfleiks og segir Patrekur að það hafi klárlega ekki verið planið.

„Það var ekki planið að koma slakir út í seinni hálfleikinn, við vorum 14-6 í fyrri hálfleik en svo kom 7-2 kafli frá okkur þar sem Haukarnir voru slakir líka. Óskað að það hefði verið það sama í seinni hálfleik en Haukarnir voru alltaf skrefinu á undan okkur. Ef við hefðum nýtt okkur öll dauðafærin þá hefði þetta farið öðruvísi.“

„Maður reynir nú yfirleitt að vera jákvæður, og það sem er jákvætt er að í stöðunni 14-6 gegn Haukum þá hefði maður oft sagt, þetta er bara búið. En menn gáfust ekki upp, héldu áfram og komu til baka.“

„Við vorum að spila margt ágætlega en eins og ég hef sagt þá fórum við hrikalega illa með þessi dauðafæri, sum hver af 6 metrunum.“

Elvar Örn Jónsson var frá vegna meiðsla í kvöld og Patrekur segir að það hafi ekki farið í gegnum hugsa hans á meðan leik stóð í kvöld að það vantaði Elvar.

„Ég var ekkert að spá í því að það hafi vantað hann. Við vorum oft án hans í fyrra og spiluðum alveg og unnum leiki þá. Ég var bara ánægður með strákana sem spiluðu í dag. 3 eða 4 í hóp úr akademiunni.“

„Ég get ekkert kvartað yfir leikmannahópnum í dag það vantaði bara gæðin í skotin hjá okkur. Það er svona greiningin strax eftir leik, það kemur kannski annað í ljós í kvöld þegar ég fer yfir leikinn.“

Næst er það Evrópukeppnin sem bíður Selfyssinga en þar mæta þeir pólsku liði. Fyrri leikurinn er á laugardaginn en umferðin er sú síðasta fyrir riðlakeppnia.

„Mér líst vel á það verkefni, þetta er hörkulið í Póllandi, 2 eða 3 sæti. Það eru turnar í þessu liði, þetta verður svipað og hérna í kvöld. Það verða dómar sem eru 50/50 eins og í kvöld. Þetta verður nákvæmlega eins ef ekki verra á laugardaginn. Við erum því búnir að undirbúa okkur vel fyrir það,“ en verða allir með?

„Ég vonast eftir að Elvar og Guðni verði með já, þeir ættu að vera búnir að jafna sig en Richard verður ekki með.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira