Viðskipti erlent

Samdráttur í þýsku efnahagslífi í fyrsta sinn síðan 2015

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Angela Merkel, kanslari Þýskaland, hefur mögulega einhverjar áhyggjur af efnahagslífi landsins þessa dagana.
Angela Merkel, kanslari Þýskaland, hefur mögulega einhverjar áhyggjur af efnahagslífi landsins þessa dagana. vísir/epa
Svo virðist sem að kólnandi hagkerfi séu víðar en á Íslandi, þar á meðal í Þýskalandi en erlendir fjölmiðlar greina nú frá því að samdráttur mælist nú í þýsku efnahagslífi í fyrsta sinn frá árinu 2015.

Á þriðja ársfjórðungi dróst verg landsframleiðsla í Þýskalandi saman um 0,2 prósent en á öðrum ársfjórðungi var hagvöxtur 0,5 prósent.

Samdráttur hefur ekki verið meiri á þriggja mánaða tímabili í Þýskalandi frá því á fyrsta ársfjórðungi 2013 þegar hann var 0,3 prósent, samkvæmt tölum frá þýsku hagstofunni.

Frá því í júlí og þar til í september dróst útflutningur saman í Þýskalandi á meðan að innflutningur jókst en landið er vel þekkt sem einn stærsti útflytjanda vara og þjónustu í heiminum.

Þýska hagstofan rekur samdráttinn meðal annars til þessa sem og minni einkaneyslu Þjóðverja á meðan fyrirtæki og hið opinbera standa í fjárfestingum.

Þýskaland er stærsta hagkerfi evrusvæðisins og þó að samdráttinn megi meðal annars rekja til tímabundinna aðstæðna eins og nýrrar reglugerðar um útblástur bíla sem hefur áhrif á bílaiðnað landsins, vara hagfræðingar við því að blikur séu á lofti í efnahagslífinu.

„Vandamál sem sköpuðust varðandi útblásturinn höfðu mikil áhrif á bílaframleiðslu, hærra orkuverð þurrkaði algjörlega út launahækkanir fólks og svo má ekki vanmeta minnkandi sjálfstraust hjá þjóðinni vegna heimsmeistarakeppninnar í fótbolta,“ segir Carsten Brzeski, aðalhagfræðingur hollenska bankans ING í Þýskalandi.

Þjóðverjar komust ekki í 16 liða úrslit á HM í Rússlandi í sumar sem hefur varla haft góð áhrif á þýsku þjóðarsálina, sem hefur svo hugsanlega haft áhrif á einkaneyslu fólks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×