Viðskipti innlent

Arion gefur út víkjandi skuldabréf

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Útgáfunni er ætlað að styrka eiginfjárstöðu bankans.
Útgáfunni er ætlað að styrka eiginfjárstöðu bankans. Vísir/Eyþór
Arion banki gaf í dag út skuldabréf eiginfjárþáttar 2 að fjárhæð 500 milljónir sænskra króna. Skuldabréfin eru gefin út til 10 ára með innköllunarheimild af hálfu útgefanda eftir 5 ár.

Skuldabréfin, sem eru fyrsta víkjandi útgáfa Arion banka, eru með fljótandi vexti, 310 punkta ofan á millibankavexti í sænskum krónum. Nordea, Swedbank og SEB sáu um útgáfuna fyrir hönd bankans.

„Útgáfa skuldabréfanna styrkir eiginfjárgrunn bankans og er áfangi í vegferð hans að ná fram hagkvæmri skipan eiginfjár,“ segir í tilkynningu sem bankinn sendi til Kauphallarinnar vegna útgáfunnar.

Skuldabréfin teljast til eiginfjárþáttar samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki en bankinn gerir ráð fyrir að útgáfan fái lánshæfiseinkunnina BBB- frá S&P Global Ratings. Skuldabréfin verða gefin út undir EMTN útgáfuramma bankans og er stefnt að töku skuldabréfanna til viðskipta í kauphöllinni í Lúxemborg þann 22 nóvember 2018.

Samið við Citi

Þá hefur Arion banki jafnframt samið við Citigroup Global Markets Limited um ráðgjöf vegna fyrirhugaðra breytinga á eignarhaldi Valitor, dótturfélagi Arion banka, sem gætu falið í sér sölu á meirihluta hlutafjár eða öllu hlutafé í Valitor. Þar með eru fréttir Markaðarins staðfestar, en greint var frá samningi Citi og Arion í gær. 

Í tilkynningu frá Arion vegna málsins segir að nánari upplýsingar um málið muni liggja fyrir eftir 6 til 12 mánuði.


Tengdar fréttir

Gildi í hóp stærstu hluthafa Arion

Gildi - lífeyrissjóður hefur keypt liðlega 1,2 prósenta eignarhlut í Arion banka og fer nú með um 1,8 prósenta hlut í bankanum. Er hlutur lífeyrissjóðsins metinn á ríflega 2,8 milljarða króna miðað við núverandi gengi bréfa bankans.

Citi ráðgjafi við sölu á Valitor 

Bandaríski fjárfestingarbankinn Citi verður ráðgjafi Arion banka við sölu á Valitor, dótturfélagi bankans, en áformað er að selja félagið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×