Umfjöllun og viðtöl: ÍR 26-21 Grótta | ÍR-ingar ekki í vandræðum með Gróttu.

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
ÍR unnu mikilvægan sigur
ÍR unnu mikilvægan sigur vísir/bára
ÍR vann Gróttu 26-21 í níundu umferð Olís deildar karla í kvöld. Liðin voru fyrir leikinn með jafn mörg stig í deildinni svo þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir ÍR. Leikurinn var jafn framan af en ÍR tók fram úr eftir rúmar tuttugu mínútur og voru yfir það sem eftir var af leiknum.

 

Grótta byrjuðu leikinn betur og komust aftur og aftur í dauðafæri fyrstu tuttugu mínútur leiksins. Stephen Nielsen gjörsamlega hélt ÍR inni í leiknum í upphafi og var að verja úr öllum áttum.

 

Það var vendipunktur í leiknum þegar Jóhann Reynir Gunnlaugsson leikmaður Gróttu fékk tvær mínútur fyrir brot, byrjaði að rífa kjaft og fékk tvær mínútur í viðbót. ÍR vann þennan fjögurra mínútna kafla 3-0 og komust í 11-8 forystu. Jóhann Reynir var búinn að vera allt í öllu í sóknarleik Gróttu en eftir þetta var sóknarleikur Gróttu alveg í molum. Staðan í hálfleik var 12-9.

 

ÍR komu töluvert ákveðnari inn í seinni hálfleikinn en þann fyrri. Grótta hætti að fá svona mikið af dauðafærum en Stephen hélt samt áfram að verja í markinu. Þrátt fyrir nokkrar endurkomu tilraunir frá Gróttu þá var sigur Breiðhyltingana aldrei í hættu. Slæm ákvarðanataka einkenndi sóknarleik Gróttu á meðan ÍR létu boltann ganga vel og fundu þannig fullt af góðum færum.

 

 

 

Af hverju vann ÍR?

Stephen Nielsen á stórt hrós skilið fyrir þennan leik, í fyrri hálfleik hefði Grótta getað komist í stóra forystu en Stephen hætti bara ekki að verja. Grótta voru svo bara hræðilega lélegir í seinni hálfleik og áttu ekki skilið nein stig í kvöld.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Arnar Freyr Guðmundsson vinstri skytta ÍR var sjóðheitur í kvöld, skoraði 7 mörk og var með tvær stoðsendingar.

 

Varnarleikur ÍR var hræðilegur í upphafi þangað til að Þrándur Gíslason kom inná. Hann var með varnareinkunn uppá 8.5 skv. HBStatz og átti hana klárlega skilið.

 

Sveinn Jose Rivera var eini leikmaður Gróttu sem fann leiðina framhjá Stephen í kvöld. Það gekk mjög vel hjá Gróttu að finna hann á línunni í upphafi leiks. Í seinni hálfleik fóru liðsfélagar hans síðan að senda á hann þegar hann var ekki opinn og þeir töpuðu slatta af boltum þannig.

 

Hvað gekk illa?

Allir útileikmenn ÍR komu flatir til leiks. Stephen hélt þeim hinsvegar inni í leiknum þangað til að þeir vöknuðu.

 

Erfitt að velja hlut hjá Gróttu í þennan lið en þeir voru virkilega slakir í kvöld, sérstaklega í seinni hálfleik. Markvarslan slæm, náðu ekki að nýta færin sín og hleyptu ÍR í slatta af hraðaupphlaupsmörkum.

 

Hvað gerist næst?

Grótta fá heimsókn frá Selfossi á miðvikudaginn eftir tíu daga en þeim leik var frestað útaf þáttöku Selfoss í Evrópukeppninni. ÍR fara í Garðabæinn næsta sunnudag í mikilvægum leik í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni, sá leikur verður í beinni á Stöð 2 Sport.

Einar Jónsson: Erum klaufar undir lokin
Einar er þjálfari Gróttuvísir/daníel
Tap í kvöld, hvað fannst þér um frammistöðuna hjá þínum mönnum?

 

„Mér fannst við spila að mörgu leyti vel þrátt fyrir tap. Stephen Nielsen bara vinnur þennan leik fyrir ÍRingana. Því miður, hvort sem við erum að skjóta illa eða hvað. Við erum að skapa okkur fullt af dauðafærum og erum að opna þá trekk í trekk, því miður þá vorum við ekki að skjóta nógu vel og Stephen frábær. Það er eiginlega bara saga leiksins að mínu mati. “

 

„Við erum klaufar undir lokinn, við hefðum getað kannski kroppað aðeins í þá. Við missum aðeins hausinn eða eitthvað en heilt yfir þá er þetta bara markvarslan hjá ÍR sem að klárar þetta fyrir þá.”

 

Bjarni Fritzson þjálfari ÍR tók leikhlé með minna en tvær mínútur eftir þegar ÍR voru í raun búnir að tryggja sér sigurinn. Einar leit út fyrir að vera allt annað en sáttur með þetta og fór ekki einu sinni að ávarpa liðið sitt.

 

„Að hann taki leikhlé þegar það er ein og hálf mínúta eftir og hann sex mörkum yfir. Ég læt bara aðra dæma um það.”

 

„Í seinni hálfleik erum við kannski að leita of mikið á línuna. Við erum að tapa boltanum svolítið þar. Það er eitt af því sem ég var að tala um þar sem við missum aðeins hausinn. Við vorum ekki alveg nógu agaðir í seinni hálfleik þar sem við hefðum getað tekið nokkrar sendingar í viðbót. En ég meina við skorum úr einu af tíu færum í horninu. Nýtingin úr dauðafærunum er náttúrulega bara glórulaus,” sagði Einar Jónsson þjálfari Gróttu um hvort hans menn hafi verið að leita of mikið inn á línuna í seinni hálfleik. Í fyrri hálfleik gekk þeim mjög vel að finna Svein á línunni en í seinni gekk þeim betur að finna leikmenn ÍR á línunni.

 

„Við erum að skapa okkur fullt af færum. Vörnin er svona ágæt lengst af. Annars hef ég svo sem ekki mikið að segja,” sagði Einar þegar hann var spurður hvað væri hægt að taka jákvætt úr leiknum.

Bjarni Fritz: Einar Jóns þjálfar Gróttu og ég þjálfa ÍR
Bjarni Fritzsonvísir/bára
„Ég er mjög ánægður með sigurinn og ég er mjög ánægður að við skulum hafa klárað þetta svona nokkuð þægilega undir lokinn. Ég er ekkert eitthvað yfir mig ánægður með mjög margt í þessum leik hjá okkur. Mér fannst við ekki vera að spila eins og við höfum verið að spila uppá síðkastið. Mér fannst við á mörgum köflum vera að gera okkur seka um glórulausa hluti,” sagði Bjarni Fritzsson þjálfari ÍR um frammistöðu ÍR í kvöld.

 

„Grótta eru með mjög sterkt lið. Þeir eru með mjög góða liðsheild. Þeir spila rosalega agað og gera lítið af mistökum. Það er ótrúlega erfitt að eiga við þá. Þannig að maður þarf að vera rosalega þolinmóður. Þeir hafa sýnt það í upphafi móts að allir leikir sem þeir fara í eru erfiðir leikir fyrir andstæðinginn. Þessi leikur var bara þannig. Ég var ekki rólegur fyrr en að bjallan gall endanlega,” sagði Bjarni um leik kvöldsins.

 

Þú tókst hérna leikhlé með minna en tvær mínútur eftir og unnin leik. Getur þú deilt með okkur afhverju þú tókst þetta leikhlé?

 

„Ég tek leikhlé þegar það eru tvær mínútur eftir og þá erum við búnir að taka óagað skot í sókninni á undan á tíu sekúndum sem er glórulaust og gjörsamlega óþolandi. Svo taka þeir frákast og fá dauðafæri í næstu sókn og þetta eru bara hlutir sem eru ekki í boði. Maður lærir það í sálfræðinni að það er best að ávarpa einhvern hlut beint eftir hegðun, þannig að þú getir stoppað og lært af því. Það var bara það sem ég gerði. Þetta var gjörsamlega óafsakanlegt, þetta var óagað og þetta var ekki í lagi. Það er bara ástæðan fyrir að ég tók þetta leikhlé.”

 

„Ég skil alveg að Einar Jónsson hafi verið pirraður yfir því. Þar sem að leikurinn hafi þannig séð verið kominn í hönd þó að mér hafi aldrei vel enda eru þeir mjög erfitt lið. Einar Jóns þjálfar Gróttu og ég þjálfa ÍR. Mitt verkefni er að gera ÍR eins gott og þeir geta orðið. Hans verkefni er að gera Gróttu eins gott og þeir geta orðið. Ég get ekki verið að velta mér of mikið upp úr þeim.”

 

Stephen með 50% markvörslu í kvöld, myndir þú segja að hann hafi unnið leikinn fyrir ykkur?

 

„Ég er sammála því. Mér fannst við ekki góðir í fyrri hálfleik og mér fannst við ekki tilbúnir. Ég var engan veginn sáttur með okkur. Sérstaklega fyrstu tuttugu mínúturnar. Alltof margir sem voru engan veginn að negla á þetta. Mér fannst menn pínu vera að spila til að tapa ekki. Í staðinn fyrir að spila til að vinna. Hann var lykillinn í fyrri og svo tók hann líka nokkra góða bolta í seinni. Ótrúlega gaman að sjá hann eiga svona flottan leik.

 

Bjarni sagði í viðtali við vísi fyrir tæpum tvem vikum síðan að allt myndi fara í blússandi gír núna. Þeir eru búnir að vinna báða sína leiki eftir þessi ummæli og því var rétt að spyrja hvort þeir væru ekki komnir í blússandi gír núna.

 

„Jú var ég ekki búinn að segja þér þetta?”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira