Erlent

Twitter eyddi tíu þúsund reikningum sem hvöttu fólk til að kjósa ekki

Kjartan Kjartansson skrifar
Tístin voru sjálfvirk og voru látin virðast koma frá demókrötum.
Tístin voru sjálfvirk og voru látin virðast koma frá demókrötum. Vísir/Getty
Tíu þúsund sjálfvirkum Twitter-reikningum sem sendu út skilaboð þar sem fólk var hvatt til að kjósa ekki í þingkosningum í Bandaríkjum á þriðjudag hefur verið eytt. Tístin voru send út í nafni demókrata. Twitter greip til aðgerða eftir að flokkurinn benti á reikningana sem villtu á sér heimildir.

Kosið verður til Bandaríkjaþings á þriðjudag. Talsmaður Twitter segir Reuters-fréttastofunni að falsreikningunum hafi verið eytt seint í september og í byrjun október. Samfélagsmiðillinn hefur áður eytt milljónum reikninga sem voru taldir dreifa rangindum fyrir forsetakosningarnar árið 2016.

Mikil umræða hefur verið um áróðursherferðir á samfélagsmiðlum í aðdraganda kosninga eftir að rússnesk stjórnvöld beittu þeim til þess að reyna að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum.

Leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna hafa varað við því að Rússar reyni að leika sama leik fyrir kosningarnar nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×