Erlent

Alec Baldwin ákærður fyrir líkamsárás

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Baldwin sést hér yfirgefa lögregustöð í Greenwich Village hverfinu í New York-borg eftir að hafa verið ákærður fyrir líkamsárás.
Baldwin sést hér yfirgefa lögregustöð í Greenwich Village hverfinu í New York-borg eftir að hafa verið ákærður fyrir líkamsárás. Vísir/Getty
Bandaríski leikarinn Alec Baldwin hefur verið ákærður fyrir líkamsárás. Honum er gefið að sök að hafa kýlt mann vegna deilu um bílastæði í Greenwich Village hverfinu í New York-borg.

Baldwin var sleppt úr haldi lögreglu í gær eftir að hafa verið skikkaður til þess að koma fyrir dómara þann 26. nóvember næstkomandi.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu sagði leikarinn við skýrslutöku að fjölskyldumeðlimur Baldwin hafi verið að gæta bílastæðisins svo leikarinn gæti lagt þar. Þá hafi annar maður ekið bifreið sinni í stæðið með þeim afleiðingum að Baldwin reiddist og mennirnir fóru að rífast. Eftir að hafa stjakað hvor við öðrum er Baldwin þá gefið að sök að hafa kýlt manninn sem var fluttur á sjúkrahús vegna verkja í kjálka.

Leikarinn, sem ákærður var fyrir væga líkamsárás og áreitni, hefur neitað ásökununum á hendur sér.

„Fullyrðingin að ég hafi kýlt mann vegna bílastæðis er röng. Ég vil koma því á framfæri,“ sagði Baldwin í tísti.



Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Baldwin, sem er í seinni tíð hvað þekktastur fyrir leik sinn í gamanþáttum á borð við 30 Rock og Saturday Night Live, kemst í kast við lögin en árið 2014 var honum gefið að sök að hafa hjólað gegn einstefnugötu í New York og hrópað ókvæðisorð að lögreglumanni. Því máli var þó vísað frá.

Þá var Baldwin sýknaður af ásökunum um að hafa ráðist að ljósmyndara sem reyndi að mynda Baldwin og fjölskyldu hans í Los Angeles árið 1996.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×