Innlent

Myndband sýnir ferðamenn hætt komna í miklum öldugangi við Reynisfjöru

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nokkrir ferðamannanna virðast hrasa þegar aldan skellur á þeim. Engan sakaði þó í umræddu atviki, að sögn Instagram-notandans sem birti myndbandið.
Nokkrir ferðamannanna virðast hrasa þegar aldan skellur á þeim. Engan sakaði þó í umræddu atviki, að sögn Instagram-notandans sem birti myndbandið. Instagram/Erica Mengouchian
Litlu mátti muna að ferðamenn færu í sjóinn við Reynisfjöru á dögunum í miklum öldugangi. Atvikið náðist á myndband sem birt var á Instagram á laugardag en síðustu ár hafa ítrekað verið fluttar fréttir af óförum ferðamanna á svæðinu.

Óvíst er hvenær myndbandið er tekið en það var birt á Instagram-reikningi ljósmyndarans Ericu Mengouchian fyrir þremur dögum. Í því sést fjöldi ferðamanna virða fyrir sér brimið í Reynisfjöru. Nokkrir þeirra ná ekki að forða sér áður en stór alda skellur á þeim og í lok myndbandsins sést að viðstaddir taka á rás undan sjónum og upp með ströndinni. Engin slys virðast þó hafa orðið á fólki, ef marka má textann sem Mengouchian skrifaði við myndbandið.

„Brjálaðar öldur/veður! Þetta land er enginn brandari og þetta fólk veitir viðvörunarskiltunum ekki athygli. Sem betur fer komust allir aftur á land heilu og höldnu,“ skrifar Mengouchian við myndbandið, sem sjá má hér fyrir neðan. Fréttastofa hefur sent Mengouchian fyrirspurn vegna málsins.

Svörtu sandarnir í Reynisfjöru og nágrenni eru einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Ítrekað hafa borist fréttir af því að ferðamenn hafi verið hætt komnir í fjörunni. Í janúar árið 2017 var greint frá því að barn á leikskólaaldri hefði verið hársbreidd frá því að hafna í sjónum í Reynisfjöru og þá voru þýsk hjón hætt komin á sömu slóðum árið 2008 þegar alda tók þau með sér.

Nokkur banaslys hafa einnig orðið í Reynisfjöru og nærliggjandi fjörum síðustu ár. Bandarísk kona á áttræðisaldri beið bana þegar brimalda hrifsaði hana út á dýpið árið 2007. Árið 2016 lést kínverskur ferðamaður um fertugt þegar stór alda sló honum í bergið. Síðast varð banaslys tengt briminu í janúar í fyrra þegar þýsk kona fór í sjóinn við Kirkjufjöru.

Ferðaþjónustuaðilar hafa kallað eftir því að gerðar verði frekari öryggisráðstafanir í Reynisfjöru og nærliggjandi fjörum vegna tíðra slysa. Lögregla hafði eftirlit með svæðinu um tíma eftir banaslysið í Reynisfjöru árið 2016 og þá var komið upp viðvörunarskiltum vegna slysahættu við sjóinn sama ár.


Tengdar fréttir

Varað við óvenjuháum öldum í Reynisfjöru

Spáð er allt að sex til sjö metra háum öldum í Reynisfjöru og nágrenni á morgun. Veðurfræðingur segir ástæðu til að vara við sjóganginum og mögulega loka fjörunum fyrir umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×