Erlent

David Schwimmer segist saklaus

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Schwimmer gerði góðlátlegt grín að myndinni.
Schwimmer gerði góðlátlegt grín að myndinni. Mynd/Skjáskot
Bandaríski leikarinn David Schwimmer segist ekki vera maðurinn sem lögreglan í Blackpool í Bretlandi leitar nú að í tengslum við þjófnað í verslun. Maðurinn þykir nauðalíkur Friends-leikaranum vinsæla.

Á mynd sem tekin er úr eftirlitsmyndavél sést maðurinn halda á kassa af bjór en hans er leitað vegna gruns um aðild að þjófnaði þann 20. september síðastliðinn. Lögregla deildi myndinni á Facebook-síðu sinni í gær og voru netverjar afar fljótir að taka við sér og spyrja hvort verið væri að leita að Schwimmer.

Svo virðist sem að leikarinn sjálfur hafi ekki farið varhluta af umfjöllun um tvífara sinn og birti hann myndband á Twitter í dag þar sem hann segist vera alsaklaus og gerir grín að myndinni sem lögreglan birti.

Á myndbandinu sem hann birtir má sjá Schwimmer í matvöruverslun hlaupandi á brott með kassa af bjór, líkt og tvífarinn á myndinni sem lögreglan í Blackpool birti. Þetta segir Schwimmer sýna fram á að hann sé saklaus þar sem hann hafi verið staddur í New York, en ekki Blackpool, þegar glæpurinn var framinn.

„Ég sver að þetta var ekki ég. Eins og sjá má, þá var ég í New York. Til hinnar harðduglegu lögreglu í Blackpool, gangi ykkur vel að rannsaka málið #þaðvarekkiég,“ skrifar Schwimmer við myndbandið sem sjá má hér að neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×