Innlent

Komin með samning við Sjúkratryggingar Íslands

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Anna Björnsdóttir taugalæknir opnaði stofu í Reykjavík í byrjun september. Henni var synjað um aðild að samningi SÍ og sérfræðilækna.
Anna Björnsdóttir taugalæknir opnaði stofu í Reykjavík í byrjun september. Henni var synjað um aðild að samningi SÍ og sérfræðilækna. Vísir/Egill
Anna Björnsdóttir taugalæknir er komin með samning við Sjúkratryggingar Íslands. Hún fékk tilkynningu þess efnis á föstudaginn en hún hafði undanfarnar sex vikur sinnt sjúklingum með taugasjúkdóma sem áttu ekki rétt á endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands. RÚV greinir frá.

Óhætt er að segja að um tímamót sé að ræða því sérfræðilæknar höfðu ekki fengið aðild að rammasamningi SÍ síðan í janúar 2016. Eftir dóm í máli Ölmu Gunnarsdóttur háls-, nef- og eyrnalæknis í september, eru aðstæður breyttar. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að ráðherra mátti ekki hafna Ölmu aðild að rammasamningnum.

Mál Ölmu hafði fordæmisgildi í mörgum málum, þar á meðal hjá Önnu. Hún segir að á undanförnum sex vikum hafi hún sinnt á bilinu 100 til 150 sjúklingum sem þurftu að greiða fullt gjald, þ.e. fengu enga endurgreiðslu. Sjúklingarnir sitji nú við sama borð og sjúklingar annarra sérlækna sem hafa verið með samning við SÍ.

Heilbrigðisráðherra stefnir á að framlengja rammasamning SÍ við sérfræðilækna um eitt ár en þeir renna út um áramótin. Vill ráðherra nýta tímann til að finna heildarlausn. Sérfræðilæknar funduðu á dögunum og telja eins árs framlengingu of skamman tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×