Erlent

Mynd af áhöfn Ryanair reitir netverja til reiði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Myndin hefur reitt netverja til mikillar reiði.
Myndin hefur reitt netverja til mikillar reiði. Mynd/S
Fjórar áhafnir írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair þurftu að sofa á gólfinu næturlangt á flugvelli á Malaga á Spáni, að sögn stéttarfélags flugfreyja í Portúgal. Ryanair fullyrðir að myndin sé sviðsett.

Flugvélar félagsins, sem voru á leið til Porto í Portúgal, neyddust til að lenda í Malaga sökum veðurs. Tuttugu og fjórir áhafnarmeðlimir voru því fastir á flugvellinum.

Mynd af fólkinu, sem sýnir það sofandi á gólfinu, hefur vakið töluverða athygli á Internetinu en portúgalska stéttarfélagið SNPVAC heldur því fram að starfsmönnunum hafi ekki staðið betri aðstaða til boða, auk þess sem þeir fengu hvorki vott né þurrt á meðan dvölinni stóð.

Talsmenn Ryanair fullyrða hins vegar að myndin sé sviðsett og að áhafnarmeðlimirnir hafi aðeins dvalið stuttan tíma í herberginu áður en þeir voru færðir yfir í viðhafnarsetustofu á flugvellinum. Þetta hafi verið gert sökum þess að umræddur dagur hafi verið lögbundinn frídagur á Spáni og öll hótel uppbókuð. Í yfirlýsingu flugfélagsins segir einnig að starfsfólkið hafi ekki verið sent til vinnu daginn eftir.

Myndinni var fyrst deilt á Twitter, þar sem hún vakti hörð viðbrögð og hneykslan netverja en þeir settu margir út á meðferð flugfélagsins á starfsmönnum sínum. Þá var myndin einnig birt á vefsíðunni Reddit, þar sem hið sama var uppi á teningnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×