Innlent

Dæmdur til greiðslu sektar fyrir að dreifa hatri í nafni konu sinnar

Atli Ísleifsson skrifar
Sema Erla Serdar fagnar dómi Héraðsdóms Suðurlands.
Sema Erla Serdar fagnar dómi Héraðsdóms Suðurlands. Vísir/Eyþór
Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann til greiðslu 100 þúsund krónu sektar fyrir hatursummæli sem beindust gegn Semu Erlu Serdar í athugasemdakerfi við frétt DV.is árið 2016. Maðurinn ritaði ummælin í nafni konu sinnar sem hefur starfað sem leikskólakennari í Vestmannaeyjum. Sema Erla fagnar dómnum og segir hann marka tímamót.

Ummælin voru rituð í júlí 2016 við fréttina „Sema Erla sökuð um herferð gegn Útvarpi Sögu: Birtir hatursfull skilaboð“. Í athugasemdakerfinu skrifaði maðurinn: „Vona að Sema Erla Serðir farist í næstu hryðjuverkaárás skítmenna af hennar tagi (múslimaskítmenna).“

Samkvæmt dómnum er „augljóst að ummælin eru til þess fallin að hæðast að, rógbera, smána eða ógna múslimum almennt vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða, en jafnframt Semu Erlu Serdaroglu þó að hún sé ekki múslimi“. Hinn dæmdi var auk sektarinnar dæmdur til að greiða allan málskostnað.

Ekki verið birtur

Dómurinn hefur ekki verið birtur á heimasíðu dómstólsins, en Sema Erla fékk hann sendan eftir að hafa sóst eftir því. 

Sema Erla segir í stöðufærslu á Facebook fyrr í dag að dómurinn marki tímamót og sé stórsigur og í baráttunni gegn hatursorðræðu.

„Dómurinn staðfestir að hatursorðræða er ekki varin af skoðanafrelsisákvæði Stjórnarskrárinnar, enda á hatursorðræða ekkert skilt við tjáningarfrelsi. Ekkert. Hatursorðræða er ofbeldi,“ segir Sema Erla.

Að neðan má lesa færslu Semu Erlu frá fyrr í dag.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×