Umfjöllun og viðtöl: Valur 25-28 Afturelding │Afturelding aftur á sigurbraut eftir sigur á Val

Skúli Arnarson í Origo-höllinni skrifar
Úr leik hjá Aftureldingu.
Úr leik hjá Aftureldingu. vísir/Bára


Það fór fram hörku leikur í Origo höllinni í dag þegar Afturelding náðu sér í frábæran sigur á Valsmönnum með 28 mörkum gegn 25. Leikurinn var liður í sjöttu umferð Olís deildar karla í handknattleik. Fyrir leikinn í dag voru Valur í þriðja sæti með sjö stig eftir fimm umferðir en Afturelding var fyrir leik dagsins í fjórða sæti með sex stig. Afturelding komust því með sigrinum upp fyrir Val í þriðja sætið. 

 

Leikurinn var gífurlega jafn. Bæði lið voru að klúðra mikið af dauðafærum snemma leiks og voru bæði Arnór í marki Aftureldingu og Daníel í marki Vals að verja vel. Liðin skiptust á að vera með eins marks forystu og það var ekki fyrr en á 27.mínútu sem að Afturelding náði tveggja marka forystu í fyrsta sinn í leiknum. Þá tók Snorri Steinn, þjálfari Vals leikhlé. Það virkaði ágætlega en Afturelding fóru með eins marks forystu inn í leikhlé, 12-11. 

 

Valsmenn komu sterkir út í seinni hálfleikinn og komust í tveggja marka forystu þegar Orri Freyr Gíslason, línumaður Vals, kastaði sér inn í teig og blakaði boltanum yfir Pálmar sem var þá kominn í mark Aftureldingu. Afturelding gáfust heldur ekki upp og var síðari hálfleikurinn keimlíkur þeim fyrri, hnífjafn. Það var ekki fyrr en um fimm mínútur voru eftir af leiknum sem Afturelding fór að síga fram úr. Þeir komust í 22-25 þegar þrjár mínútur voru eftir með marki frá Elvari Ásgeirssyni. Þá var munurinn orðinn of mikill fyrir Valsmenn og Afturelding sigldi þriggja marka sigri heim. 

 

Frábær sigur fyrir Aftureldingu en Valsmenn eru búnir að tapa tveimur leikjum í röð og þurfa alvarlega að fara að skoða sinn leik.

 

Hversvegna vann Afturelding?

Afturelding voru einfaldlega betri á lokametrunum. Þeir spiluðu góða vörn og voru á köflum að spila flottan sóknarleik. Fyrir aftan vörnina var Arnór að verja vel. 

 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Aftureldingu var Tumi Steinn frábær gegn sínum gömlu félögum en hann skoraði 8 mörk í dag. Hann var duglegur að taka á skarið, virtist ekki vera stressaður að spila gegn sínu gamla félagi og spilaði ekki eins og drengur fæddur árið 2000 í dag. Arnór Freyr var einnig flottur í markinu og var með  um 50% markvörslu. 

 

Í liði Vals var Vignir Stefánsson markahæstur með fimm mörk og á eftir honum komu Magnús Óli og Anton Rúnarsson, báðir með 4 mörk. 

 

Hvað gekk illa?

Valsarar voru ekki nægilega beittir á síðustu mínútum leiksins. Sendingin sem Valsmenn fengu frá Eyjum, Róbert Aron og Agnar Smári voru saman með tvö mörk úr þrettán skotum. Valsmenn verða að fá meira frá þeim félögum ef þeir ætla sér einhverja hluti í vetur. 

 

Hvað gerist næst?

Nú tekur við landsleikjahlé þar sem Ísland leikur við Grikkland í Laugardalshöllinni á miðvikudaginn 24.október. Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að næla sér í miða á leikinn og styðja landsliðið til sigurs en leikurinn er fyrsti leikur liðsins í undankeppni EM 2020. 

 

Eftir landsleikjahlé mæta Valur ÍBV í eyjum 5.nóvember. Þar þurfa Valsarar á sigri að halda gegn ógnarsterku liði eyjamanna. Afturelding fær FH í heimsókn sama dag og það er spurning hvort þeir nái að byggja ofan á þessa frammistöðu hér í dag. 

 

Einar Andri: Gríðarlega stoltur af liðinu.

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var að vonum ánægður með sitt lið eftir leikinn í dag. 

 

“Ég er gríðarlega stoltur af liðinu. Við spiluðum frábæran leik í 60 mínútur og börðumst eins og ljón. Ég er virkilega sáttur við alla, allir leikmenn taka þátt í leiknum og skila virkilega sínu.Í fyrri hálfleik er jöfn staða og ég held að við förum með fimm hraðaupphlaup. Mér fannst við vera sterkari aðilinn. Valur er auðvitað með frábært lið en við vorum bara að spila toppleik.”

 

Afturelding brenndi af mörgum dauðafærum í fyrri hálfleik en Einar hafði aldrei áhyggjur að það myndi kosta þá leikinn. 

 

“Ég hafði engar áhyggjur af því. Menn voru bara það einbeittir og grimmir að mér fannst þetta alltaf líta vel út.”

Tumi Steinn Rúnarsson var frábær fyrir Aftureldingu í dag og Einar er ánægður með strákinn. 

 

“Hann er bara ungur og er búinn að vera spila virkilega vel í vetur og var frábær í dag.”

“Vörnin er búin að vera mjög góð í allan vetur hjá okkur. Það var smá barsl í byrjun leiks en svo fannst mér við ná góðum tökum á þessu,” sagði Einar að lokum. 

 

Tumi Steinn: Búið að vera draumur síðan tímabilið byrjaði.

Besti maður vallarins, Tumi Steinn Rúnarsson var búið að dreyma um að koma aftur á sinn gamla heimavöll. 

 

“Þetta er frábært. Það er búið að vera draumur síðan tímabilið byrjaði að fá að koma hérna á minn gamla heimavöll og sigra.”

 

Tumi er fæddur árið 2000 en það virtist ekki vera mikið stress í stráknum í dag þrátt fyrir að vera að koma á sinn gamla heimavöll. 

 

“Alls ekki. Þetta eru allir félagar mínir. Það var auðvitað skrýtið að koma hérna í öðrum búning og spila við sitt gamla lið.”

 

Afturelding fara ágætlega af stað í deildinni. Tumi heldur að Afturelding eigi eftir að koma á óvart í vetur. 

 

“Þetta er geggjað lið. Það eru allir saman og allir bræður. VIð erum eitt geggjað lið og erum að fara að gera eitthvað í vetur og valda einhverjum usla.”

 

Tumi skoraði fjögur mörk af vítapunktinum í dag. 

 

“Ég er öruggur á vítapunktinum svo að það var ekkert stress.”

 

Snorri Steinn: Eigum gríðarlega langt í land. 

“Þetta eru bara vonbrigði. Við vorum ekki nógu góðir og við töpum bara verðskuldað hér í dag,” sagði Snorri Steinn að loknum leik í dag.

 

“Mér fannst við bara vera að ströggla allan leikinn. Mér fannst við ekki vera í takt, sérstaklega sóknarlega og þar vantar ákveðið flæði og við fáum bara hlutina ekki til að virka hjá okkur. Við hefðum auðvitað getað unnið leikinn, ég er ekki að segja það, en Afturelding voru bara betri en við í dag.”

 

Valur fengu þá Róbert Aron og Agnar Smára frá ÍBV fyrir tímabilið og ætla sér stóra hluti í vetur en þeir spiluðu langt undir getu í dag. Snorri er samt sem áður ánægður með þá.

 

“Ég þarf meira frá þeim og ég þarf meira frá liðinu í heild sinni. Þetta snýst ekkert um þá þó svo að þeir geti klárlega leikið betur og þeir vita það manna best. Ég hef svosem engar teljandi áhyggjur af þeim. Þeir eru búnir að æfa vel og búnir að falla frábærlega inn í hópinn.”

 

“Það er alltaf vont að tapa og það er enn verra að tapa tveimur leikjum í röð. Það er líka mjög slæmt að fara svona inn í landsleikjahléið. Kannski er þetta ágætt fyrir okkur, við þurfum að vinna í okkar hlutum og okkar málum. Það er svosem ekkert annað hægt að gera. Við þurfum bara að bíða eftir næsta leik,” sagði Snorri sem vill meina að Valur eigi gríðarlega langt í land að ná að spila á fullri getu. 

 

“Við eigum gríðarlega langt í land. Við eigum alveg hrikalega mikið inni, bæði sem lið og sem einstaklingar.”

 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira