Sport

Íslendingar dæma Íslendinga á EM: „Alltaf pínu stressandi“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Lissabon skrifar
Ágústa að störfum á EM í Portúgal
Ágústa að störfum á EM í Portúgal mynd/kristinn arason
Íslenski hópurinn á EM í hópfimleikum er skipaður fleirum en bara keppendum og þjálfaraliði. Fjórir íslenskir dómarar eru með í för og þurfa þeir meðal annars að dæma íslenska keppendur.

Ágústa Dan Árnadóttir er einn íslensku dómaranna á mótinu í Portúgal. Hún gaf sér tíma á milli dómgæslustarfa til þess að ræða við blaðamann um hvað felst í dómarastarfinu og hvernig sé að dæma vini sína frá Íslandi.

„Á hverju áhaldi eru tveir mismunandi flokkar af dómurum, annars vegar dómarar sem dæma samsetningu og erfiðleika og hins vegar dómarar sem dæma framkvæmdina. Þeir sem eru að dæma framkvæmdina þeir byrja í 10 og draga frá ef einhver lendir ekki, fer ekki nógu hátt upp í loftið og svo framvegis. Þeir sem dæma samsetninguna og erfiðleikann þeir byrja í 0 og byggja sig upp. Þú færð stig fyrir það sem þú framkvæmir eftir fyrir fram ákveðnum reglum.“



Margra ára þjálfun og fjöldi prófa sem þarf að standastKeppni í hópfimleikum samanstendur af þremur áhöldum. Gólfi, þar sem keppendur framkvæma dans við tónlist og verður dansinn að innihalda ýmsar æfingar, eins og til dæmis jafnvægisæfingar. Á dýnu og trampólíni gerir liðið þrjár stökkseríur á hvoru áhaldi.



Dansæfingar krefjast erfiðra jafnvægisæfingamynd/kristinn arason
Fremstu þjóðirnar framkvæma mjög flókin og hröð stökk og óþjálfað auga á litla möguleika á að sjá muninn á milli þjóðanna. Ágústa segir það ekki eins ógurlegt verk og það virðist að dæma þar á milli.

„Við erum náttúrulega í góðri æfingu að sjá hvað er að. Maður skilur alveg að óvant auga sjái ekki litlu munina sem við sjáum, til dæmis þegar ein fór miklu betur upp í loftið heldur en önnur. Það er augljóst þegar einhver dettur að þá á það auðvitað ekki að vera þannig, en það eru litlu mínusarnir sem við sjáum.“

„Við sem komum frá Íslandi erum búnar að vera að dæma í mörg ár og fórum á alþjóðlegt dómaranámskeið úti þar sem að voru 10, 12 próf í mismunandi pörtum af dómgæslu, bæði bóklegt og verklegt, í öllum mismunandi sætum á öllum áhöldum. Það fellst mikil þjálfun í þessu.“

Dómgæsla er sjálfboðastarf og fá dómarar mótsins ekkert greitt fyrir þá vinnu sem þeir skila af sér. Hverju landi stendur til boða að senda fjóra dómara á mótið. Öll Norðurlöndin og Hollendingar sendu fjóra dómara til Portúgal, en Norðurlandaþjóðirnar hafa lengi verið þau bestu í hópfimleikum. 

Hefur oft þurft að dæma vini og liðsfélaga
Það er horft í öll smáatriði í stökkum keppendamynd/kristinn arason
Enginn dómaranna kemur frá landi sem ekki er með lið í keppni. Þegar horft er til stóru boltaíþróttanna kæmi það aldrei til greina að Íslendingur væri að dæma leik Íslands. Hvernig er að dæma íslensku liðin?

„Það er alltaf pínu stressandi. Maður vill hvorki vera of ljúfur né of harður.“ 

„Maður vill helst vera í miðjunni og halda sinni línu sem maður er búinn að setja sér á mótinu. Það er alltaf pínu aukahjartsláttur þegar Ísland kemur upp en þetta bara venst,“ sagði Ágústa. Hún sagði það koma fljótt upp ef dómari væri of hliðhollur löndum sínum.

„Það er þannig að það eru skýrar reglur um hver munurinn á milli dómaranna má vera. Það eru fjórar einkunnir fyrir hvert áhald og bæði má vera ákveðið mikið á milli hæstu og lægstu einkunnarinnar og svo líka á milli miðjueinkunnanna tveggja. Ef þú passar ekki inn í jöfnuna þá ertu skammaður og gætir þurft að breyta einkunninni þinni.“

Ágústa var sjálf í fimleikum í fjölmörg ár en hætti fyrir um sex árum. Hún var byrjuð að dæma áður en hún hætti sjálf iðkun og sagði það oft hafa komið fyrir að hún hafi þurft að dæma vini sína og fyrrum liðsfélaga.

„Við erum á Íslandi og lang flestir hafa lent í þessu. Maður þarf bara að kúpla sig út,“ sagði Ágústa Dan Árnadóttir.

Ágústa verður á meðal dómara í dag þegar blandað lið unglinga keppir í úrslitum á EM í Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×