Viðskipti innlent

KSÍ eignast „Húh“-ið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Húh-ið er ómissandi hluti víkingaklappsins svokallaða.
Húh-ið er ómissandi hluti víkingaklappsins svokallaða. Vísir/vilhelm
Knattspyrnusamband Íslands hefur náð samkomulagi við Gunnar Þór Andrésson vegna skráningar á orðmerkinu „húh.“ Samkomulagið felur í sér að Gunnar framselur skráninguna á „húh“ til KSÍ og allur frekari málarekstur stöðvaður, en málið var á borði Einkaleyfastofu.

„Gunnar hafði sjálfur samband við KSÍ í vor og óskaði eftir að sambandið tæki yfir skráninguna án greiðslu. KSÍ fagnar þessum málalokum og þakkar Gunnari fyrir að hafa leitt þetta mál til lykta á farsælan hátt,“ segir í fréttabréfi sem knattspyrnusambandið sendi út í morgun.

Forsaga málsins er sú að Hugleikur Dagsson teiknaði mynd af einstaklingi að taka Víkingaklappið margfræga og segja „HÚ!“. Það gerði Hugleikur í kringum Evrópumeistaramót karla í knattspyrnu árið 2016 og ákvað síðar meir að prenta þessa teikningu á boli og selja í vefversluninni Dagsson.com.

Gunnar Þór Andrésson afhenti KSÍ húh-iðVísir
Í desember í fyrra fengu aðstandendur vefverslunarinnar skilaboð frá Gunnari þar sem hann tjáði þeim að hann væri með einkarétt á „Húh!“ sem vörumerki þegar kæmi að fatnaði og drykkjarföngum.

Hann sagðist hafa sótt um einkarétt á vörumerkinu til að tryggja að annar aðili gæti ekki framleitt nákvæmlega eins vöru og hann og líka til að tryggja að honum yrði ekki bannað að framleiða slíkar vöru á grundvelli einkaréttar.

Gunnar greindi síðar frá því að hann sæi eftir því að hafa sótt um skráninguna, enda hafi hann orðið fyrir miklu áreiti vegna málsins. Honum hafi jafnvel verið hótað og hann kallaður öllum illum nöfnum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×