Lífið

Banni á kvikmynd sem sýnir samkynhneigð aflétt í Kenýa

Andri Eysteinsson skrifar
Leikstjóri Rafiki, Wanuri Kahiu (V) og leikkonurnar Samantha Mugatsia og Sheila Munyvia voru glaðar á Cannes hátíðinni. Eflaust eru þær líka glaðar með ákvörðun dómstóla í Kenýa
Leikstjóri Rafiki, Wanuri Kahiu (V) og leikkonurnar Samantha Mugatsia og Sheila Munyvia voru glaðar á Cannes hátíðinni. Eflaust eru þær líka glaðar með ákvörðun dómstóla í Kenýa Vísir/EPA
Dómstólar í Kenýa komust á föstudag að þeirri niðurstöðu að aflétta skyldi banni á kenísku kvikmyndinni Rafiki.

Ákvörðunin var tekin til þess að hægt væri að tilnefna hana til Óskarsverðlauna sem besta erlenda mynd ársins. Myndin var því sýnd í fyrsta sinn í kvikmyndahúsum í Nairóbí, höfuðborgar Kenýa í dag. Guardian greinir frá.

Ákvörðun dómstóla gladdi mjög framleiðendur myndarinnar en Kvikmyndaráð Kenýa er ósátt við ákvörðunina enda bannaði ráðið sýningar á myndinni í apríl á þeim grundvelli að myndin sýndi samkynhneigð í jákvæðu ljósi.

Í Kenýa eru enn lög í gildi frá nýlendutímum þar sem samkynhneigð er bönnuð.

Rafiki, sem þýðir vinur á Swahili, var frumsýnd alþjóðlega á kvikmyndahátíðinni í Cannes og var fyrsta keníska myndin sem er valin á hátíðina.

Gagnrýnendur sögðu myndina vera fallega ástarsögu tveggja kvenna sem búa í sömu blokk í Nairóbí.

Mikil aðsókn var að myndinni í Prestige kvikmyndahúsinu þar sem myndin var sýnd en vegna mikillar mætingar þurfti að sýna myndina í tveimur sölum samtímis.

Sjá má trailer myndarinnar Rafiki hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×