Erlent

Trump segir ásakanir á hendur Kavanaugh pólitískar

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna í ársbyrjun 2017.
Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna í ársbyrjun 2017. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að ásakanirnar á hendur dómaranum Brett Kavanaugh, sem forsetinn hefur tilnefnt sem nýjan dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, vera runnar undan rifjum pólitískra andstæðinga. Trump segist standa með Kavanaugh „alla leið“.

Önnur kona hefur nú sakað Kavanaugh um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi með því að hafa berað sig í gleðskap á heimavist Yale skólaárið 1983-84 og þrýst kynfærum sínum að andliti hennar þannig að þau snertu andlit hennar án samþykkis.

Trump varði Kavanaugh í samtali við fréttamenn í New York fyrr í dag og sagði dómarann vera „framúrskarandi“.

Áður hefur Christine Blasey Ford, skólasystir dómarans úr menntaskóla, sakað hann um kynferðisofbeldi. Kavanaugh hefur sjálfur hafnað ásökununum og segir þær rógburð.

Bæði Kavanaugh og Ford munu koma fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á fimmtudag. Þar munu þau svara spurningum þingmanna um ásakanirnar.

Trump er í kapphlaupi við tímann þar sem hann vill að Bandaríkjaþing staðfesti skipun Kavanaugh áður en þingkosningar fara fram í nóvember næstkomandi sem gætu breytt valdahlutföllunum í Washington.


Tengdar fréttir

Mun mæta og svara spurningum þingmanna um ásakanir á hendur Kavanaugh

Christine Blasey Ford, sálfræðiprófessor í Kaliforníu, mun mæta fyrir þingnefnd og svara spurningum þingmanna um ásakanir hennar á hendur Brett Kavanaugh, hæstaréttardómaraefni Donalds Trump Bandaríkjaforseti, um kynferðisofbeldi fyrir um þrjátíu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×