Handbolti

Seinni bylgjan: Fimm bestu sem komast ekki í B-landsliðið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
S2 Sport
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari karla í handbolta valdi á dögunum B-landsliðshóp sem æfir um næstu helgi. Sérfræðingar Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport fóru yfir topp 5 lista þeirra leikmanna sem ekki voru valdir.

Í B-landsliðið koma saman leikmenn eingöngu úr Olísdeild karla. Þetta er verkefni sem HSÍ vill halda gangandi, þarna koma saman leikmenn sem eru kannski ekki komnir á þann stað að komast í A-landsliðið en geta æft saman og sannað sig fyrir landsliðsþjálfurunum.

Í hópnum að þessu sinni eru menn á borð við Elvar Örn Jónsson og Hauk Þrastarson. En hvaða leikmenn mega vera nokkuð svekktir yfir því að vera ekki í þessum tuttugu manna æfingahóp?

Jóhann Gunnar Einarsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar, setti saman lista yfir topp 5 leikmenn sem misstu af sæti í hópnum.

Selfyssingurinn Hergeir Grímsson er í fimmta sæti og í fjórða sæti er Júlíus Þórir Stefánsson. Félagi hans hjá Aftureldingu Böðvar Páll Ásgeirsson er í þriðja sæti.

Í öðru sæti er Sveinn Andri Sveinsson hjá ÍR.

„Kannski okkar efnilegasti miðjumaður svona fyrir utan Hauk. Er spilari, stjórnar ÍR núna meira, og ég var bara svolítið hissa á að hann væri ekki valinn. Ég verð bara að segja það Gummi,“ sagði Jóhann Gunnar og ávarpaði þar landsliðsþjálfarann í gegnum víðtækin.

Efstur á þessum topplista er Theodór Sigurbjörnsson, Íslands- og bikarmeistari með ÍBV.

„Hann er með einn hægri hornamann í þessum hópi, Kristján Orri, fullkomlega verðskuldað. Ég veit ekki afhverju Teddi er ekki. Hann gaf einhvern tíman ekki kost á sér, er Gummi kominn í fýlu út í hann? Ég veit það ekki.“

„Skrítið að hann sé ekki nefndur þarna og valinn því hann var byrjaður að spila aðeins í A-landsliðinu og stóð sig frábærlega,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson.

Alla yfirferðina á listanum og stórbrotið augnablik þar sem hann kallar Júlíus Þóri „Úlíus“ má sjá í klippunni hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×