Lífið

Reyndi að ræna börnum frá foreldrum sínum í stórfurðulegu streymi á Instagram

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Netverjar hafa margir furðað sig á myndbandi Lindsay Lohan.
Netverjar hafa margir furðað sig á myndbandi Lindsay Lohan. getty/Oscar Gonzalez
Bandaríska leikkonan Lindsay Lohan sætir nú mikilli gagnrýni eftir að hún streymdi stórfurðulegu atviki beint á Instagram-reikningi sínum. Í myndbandinu sést Lohan veitast að fjölskyldu, sem hún segir flóttamenn frá Sýrlandi, og saka foreldrana um að stunda mansal.

Lohan hóf streymið snemma á laugardagsmorgun en óljóst er hvar atvikið átti sér stað. Hún hefur þó verið á flakki um Evrópu síðustu misseri, ef marka má nýjustu færslur á Instagram sem merktar eru París og Moskvu.

Í myndbandinu má fyrst sjá Lohan gefa sig á til við fjölskylduna sem virðist heimilislaus. Lohan ávarpar fólkið sem sýrlenska flóttamenn og lýsir yfir þungum áhyggjum af börnunum, tveimur drengjum. Hún býðst til þess að taka þá með sér upp á hótelherbergi til að horfa á mynd en verður bersýnilega reið þegar foreldrarnir hafna tilboðinu.

„Þú ættir að vera kona sem leggur hart að þér og þú ættir að gera hvað þú getur fyrir börnin þín, svo þau eigi kost á betra lífi,“ segir Lohan við móður drengjanna. Þá virðist hún gera tilraun til að ræða við fólkið á erlendu tungumáli sem hún hefur ekki góð tök á.

Að endingu tekur fjölskyldan saman eigur sínar og gengur í burtu en Lohan eltir. Við eftirförina sakar hún foreldrana um mansal og segir þá „eyðileggja arabíska menningu.“ Þá þvertekur hún fyrir að fara nema drengirnir fylgi henni. Í lok myndbandsins veitist Lohan að konunni sem hrindir Lohan í götuna. Myndbandið má sjá hér að neðan.

Samfélagsmiðlanotendur brugðust margir ókvæða við birtingu myndbandsins og sökuðu Lohan um að hafa reynt að ræna drengjunum. Þá hefur aðför Lohan að fjölskyldunni verið sögð sláandi, ógeðsleg og óþægileg. Netverjar hafa þó fyrst og fremst furðað sig á myndbandinu, líkt og sjá má á viðbrögðunum hér að neðan.

Lohan hefur lengi glímt við áfengis- og eiturlyfjafíkn og hefur rætt opinskátt um erfiðleika í einkalífi sínu síðustu ár. Hún hefur ekki tjáð sig um atvikið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir fjölmiðla vestanhafs.


Tengdar fréttir

Lindsay Lohan byrjar með raunveruleikaþætti á MTV

Barnastjarnan Lindsay Lohan mun snúa aftur á skjáinn í nýjum raunveruleikaþætti á sjónvarpsstöðinni MTV. Þættirnir munu fylgja Lohan eftir þar sem hún sér um rekstur næturklúbbs á Grikklandi.

Lindsay Lohan á Íslandi: „Fallegur dagur með fallegu fólki“

„Fallegur dagur með fallegu fólki“ skrifar leikkonan Lindsay Lohan undir myndband sem hún sendi frá sér. Hún er stödd hér á landi til að vera viðstödd brúðkaup vina sinna en samfélagsmiðlasérfræðingurinn Oliver Luckett giftist Scott Guinn í gær á Hótel Borealis við Úlfljótsvatn á Suðurlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×