Skoðun
Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, rekstrarstjóri hjá Kynnisferðum, stjórnarmaður í SAF og í LeiðtogaAuði FKA.

Fagmennska og gæði í ferðaþjónustu

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé skrifar

Íslensk ferðaþjónusta hefur vaxið og dafnað á alla vegu undanfarin ár. Ekki bara þegar kemur að fjölda ferðamanna og gjaldeyristekjum. Ferðaþjónusta sem atvinnugrein hefur líka eflst þegar kemur að þjónustu við okkar góðu gesti sem sækja Ísland heim. Um land allt starfa metnaðarfull fyrirtæki sem daglega taka á móti ferðamönnum hvort heldur sem er í afþreyingu, í skipulagðar ferðir, í mat eða gistingu.

Upplifun ferðamanna er enda mjög góð, en hún er síður en svo sjálfsögð. Í nýjum Ferðamannapúlsi sem Gallup heldur úti í samstarfi við Isavia og Ferðamálastofu og birtur var fyrr í sumar mældist heildarupplifun ferðamanna 83,4%, eða tæpum 2% meiri en á sama tíma í fyrra. Ferðamannapúlsinn byggir á spurningum sem snúa að heildaránægju ferðamanna, hvort ferðin var peninganna virði, uppfyllti væntingar, líkur á meðmælum og gestrisni okkar heimamanna.

Íslendingar hafa alla tíð verið góðir gestgjafar og hafa gestrisni og jákvæðni einkennt viðhorf okkar til ferðamanna. Það er því ánægjulegt að sjá að í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var fyrir Ferðamálastofu og birt var á dögunum kom fram að 68% landsmanna eru jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum, samanborið við 64% í fyrra.

Við sem störfum í ferðaþjónustu verðum að halda áfram að vanda okkur á öllum stigum, bæði gagnvart okkar góðu gestum og ekki síður heimamönnum. Ferðaþjónusta á Íslandi er ekki eins og síldarævintýri. Hún er komin til að vera sem stöndug heilsársatvinnugrein. Við verðum að hafa fagmennsku og gæði að leiðarljósi í uppbyggingu ferðaþjónustunnar til framtíðar.

Þá hefur verið frábært að fylgjast með uppbyggingu í ferðaþjónustu á undanförnum árum sem nýtist bæði ferðamönnum og ekki síður heimamönnum. Mikið nýsköpunarstarf á sér stað og er nú hægt að ganga inn í jökla, síga niður í eldfjöll, borða mat á heimsmælikvarða, baða sig í náttúrulegum heilsulindum og fara í skipulagðar ferðir um land allt þar sem virðing er borin fyrir náttúru og sögu. Hér er þó alls ekki um tæmandi upptalningu að ræða.

Ferðaþjónustan hefur þannig eflt byggðarlög um allt land ásamt því að styðja við aðrar atvinnugreinar. Svo er hún líka bara svo skemmtileg. Ef við höfum fagmennsku og gæði ávallt að leiðarljósi þá er framtíð ferðaþjónustunnar björt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.