Erlent

Rannsaka saumnálafaraldur í áströlskum jarðarberjum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Yfirvöld eru engu nær um hver sé að koma fyrir nálum í jarðarberjum.
Yfirvöld eru engu nær um hver sé að koma fyrir nálum í jarðarberjum. Vísir/Getty
Yfirvöld í Ástralíu hafa nú fyrirskipað rannsókn á sex tilvikum þar sem saumnálar hafa ítrekað fundist í jarðarberjum sem seld hafa verið í verslunum. Sex tilvik hafa verið tilkynnt á síðustu dögum. BBC greinir frá.

Saumnálarnar hafa fundist í jarðarberjum víðsvegar um Ástralíu og talið er að óprúttinn aðili eða aðilar hafi stungið saumnálunum inn í jarðarberin. Fjölmargir jarðarberjaframleiðendur hafa innkallað vörur sínar af þessum ástæðum og þá hafa stærstu verslunarkeðjur Nýja-Sjálands stöðvað sölu á áströlskum jarðarberjum.

„Þetta er mjög alvarlegur glæpur og þetta er árás á almenning,“ sagði Greg Hunt, heilbrigðismálaráðherra Ástralíu, sem fyrirskipað hefur matvælaeftirlitum Ástralíu og Nýja-Sjálands að rannsaka saumnálafaraldurinn.

Enginn er grunaður um verknaðinn en jarðarberjaframleiðendur og lögregla óttast að fjölda tilvika megi skýra af því að einhverjir séu að herma eftir þeim sem fyrst setti saumnál í jarðarber, fyrsta tilvikið var tilkynnt í síðustu viku.

Yfirvöld í Queensland-héraði hafa heitið verðlaunafé fyrir þann sem stígur fram með upplýsingar sem geti varpað ljósi á verknaðinn en framleiðendur í héraðinu telja að ósáttir starfsmenn séu að verki. Lögreglur telur þó of snemmt að segja til um hvort sú sé raunin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×