Skoðun

Lögleiðing hópfjármögnunar með sölu hlutabréfa

Baldur Thorlacius skrifar
Fyrir um tveimur árum var gerð afar mikilvæg breyting á reglum um sölu verðbréfa til almennings, svokölluð almenn útboð, sem fáir hafa nýtt sér og furðu lítið hefur farið fyrir. Kalla mætti almenn útboð eins konar hópfjármögnun með sölu verðbréfa.

Breytingin fól í sér að undanþágur frá kröfum sem gilda að jafnaði um almenn útboð, svo sem varðandi aðkomu fjármálafyrirtækis og gerð svokallaðrar lýsingar, voru rýmkaðar til muna.

Umræddar kröfur eru til þess fallnar að hækka kostnað við almenn útboð að svo miklu leyti að smærri fyrirtæki, sem segja má að geti haft mestan hag af slíkri fjármögnun, voru því sem næst útilokuð frá því að nýta sér þennan möguleika án undanþágu.

Áður fyrr áttu umræddar undanþáguheimildir einungis við ef fjárhæð þess sem aflað var í útboði var undir 100 þúsundum evra, jafnvirði um 12,8 milljóna íslenskra króna miðað við núverandi gengi. Var sú fjárhæð talin það lág að hún gæti tæplega gagnast neinum. Með áðurnefndum breytingum var fjárhæðin hækkuð í tvær og hálfa milljón evra, jafnvirði 320 milljóna króna, sem gjörbreytir þeirri stöðu.

Höfundur bókarinnar „Equity Crowdfunding: The Complete Guide for Startups and Growing Companies“ hefur gengið svo langt að tala um „lögleiðingu“ hópfjármögnunar með sölu hlutabréfa (e. legalization of equity crowdfunding) þegar hann ræðir samsvarandi breytingar á regluverki annarra Evrópuþjóða, sem voru í flestum tilfellum gerðar talsvert fyrr.

Endurspeglar þetta orðalag þá staðreynd að hópfjármögnun með sölu hlutabréfa er nú orðin að raunhæfum kosti við fjármögnun smærri fyrirtækja, svo sem í tengslum við skráningu þeirra á First North markaðinn.

Það er því full ástæða til að vekja enn og aftur athygli á þessum möguleika.




Skoðun

Sjá meira


×