Erlent

Baráttan hefur mikil áhrif á slökkviliðsmenn

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölmargir slökkviliðsmanna sem barist hafa við skógarelda þjást af streytu- og áfallaröskun.
Fjölmargir slökkviliðsmanna sem barist hafa við skógarelda þjást af streytu- og áfallaröskun. Vísir/AP
Bandarískir slökkviliðsmenn, sem barist hafa gegn skógareldum í Bandaríkjunum, þurfa nú einnig að berjast gegn áhrifunum sem þessi erfiða barátta hefur á þá. Minnst 64 þeirra hafa dáið við störf sín á þessu ári og þar að auki hafa minnst 45 þeirra tekið eigið líf.

Fjölmargir slökkviliðsmanna sem barist hafa við skógarelda þjást af streytu- og áfallaröskun.

„Við erum með slökkviliðsmenn sem eru á eldlínunni í tólf til 36 tima án hvíldar, svo þeir eru líkamlega búnir á því. Þeir eru líka örmagna andlega því við erum búnir að missa slökkviliðsmenn. Þeir hafa verið að deyja,“ sagði slökkviliðsstjórinn Tony Bommarito við AFP. Hann stýrir slökkviliðinu í Yorba Linda, sem er skammt frá Los Angeles og hafa hann og hans menn staðið í ströngu á þessu ári.



„Við erum ekki ofurhetjur. Allir hafa sín takmörk,“ sagði Bommarito.

AFP ræddi einnig við Jeff Dill, sem stýrir samtökum sem standa við bakið á slökkviliðsmönnum með streyt- og áfallaröskun. Hann sagði fólk búa til glansmynd af slökkviliðsmönnum þar sem þær stæðu af sér öll áföll og leituðu sér aldrei hjálpar.

Þessi ímynd dreifist inn á slökkviliðsstöðvar. Dill sagði að þó umræða um andlega heilsu slökkviliðsmanna hafi aukist mæti hann enn mótspyrnu innan slökkviliða. Sjálfur hefur hann talið minnst 1.200 sjálfsvíg slökkviliðsmanna á undanförnum tuttugu árum og þar af 93 í fyrra. Hann þykist þó viss um að um verulegt vanmat sé að ræða þar sem tölur hans byggja á því að fjölskyldumeðlmir hafi stigið fram. Engar opinberar tölur séu til.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×