Erlent

Rannsókn á kynferðisbrotum innan kaþólsku kirkjunnar hafin í New York

Kjartan Kjartansson skrifar
Barbara Underwood, dómsmálaráðherra New York, hefur opnað símalínu og vefsíðu þar sem fórnarlömb og vitni geta látið vita af sér.
Barbara Underwood, dómsmálaráðherra New York, hefur opnað símalínu og vefsíðu þar sem fórnarlömb og vitni geta látið vita af sér. Vísir/AP
Öllum átta biskupsdæmum kaþólsku kirkjunnar í New York-ríki hefur verið stefnt um gögn í tengslum við rannsókn dómsmálaráðherra ríkisins á kynferðisbrotum innan kirkjunnar. Gögnin eru sögð varða hvernig stjórnendur kirkjunnar tóku á ásökunum um kynferðisbrot, greiðslur til fórnarlamba og niðurstöður innri rannsókna kirkjunnar.

AP-fréttastofan segir að Barbara Underwood, dómsmálaráðherra New York-ríkis, rannsaki nú hvernig kaþólska kirkjan brást við ásökunum um kynferðisbrot. Skrifstofa hennar vinni með saksóknurum um ríkið sem hafa heimild til að kalla saman ákærudómstóla og stýra sakamálarannsóknum.

Fulltrúar kirkjunnar segja að þeir muni vera samvinnufúsir. Washington Post segir að rannsóknin beinist einnig að því hvort að einstök biskupsdæmi hafi hylmt yfir brotin. Dómsmálaráðherrann hefur opnað símanúmer og vefsíðu þar sem fórnarlömb og vitni að barnaníði kaþólskra presta geta haft samband við rannsakendur.

Þrjár vikur eru liðnar frá því að ákærudómstóll í Pennsylvaníu birtu skýrslu um umfangsmikil kynferðisbrot presta kaþólsku kirkjunnar þar. Niðurstaða hans var að um 300 prestar hefðu brotið gegn rúmlega þúsund börnum á sjö áratuga tímabili.


Tengdar fréttir

Páfinn tjáir sig ekki

Frans Páfi ætlar ekki að tjá sig um ásakanir þess efnis að hann hafi vitað af kynferðisbrotum innan kaþólsku kirkjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×