Erlent

Bandaríkin hóta óbeint hernaði í Sýrlandi á meðan leiðtogar þinga í Teheran

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Fjöldi hópa uppreisnar- og vígamanna halda til í Idlib og hafa margir þessara hópa verið skilgreindir sem hryðjuverkasamtök.
Fjöldi hópa uppreisnar- og vígamanna halda til í Idlib og hafa margir þessara hópa verið skilgreindir sem hryðjuverkasamtök.
Bandaríkjastjórn segir leyniþjónustu sína búa yfir upplýsingum sem sýni að sýrlenski stjórnarherinn sé að undirbúa efnavopnaárás í Idlib héraði. Það er síðasta vígi uppreisnarmanna í landinu en þar eru einnig um tvær milljónir almennra borgara.

Ljóst er að þessar upplýsingar eru ætlaðar sem innlegg í leiðtogafund Rússa, Írana og Tyrkja sem fer nú fram í Teheran, höfuðborg Írans.

Tilefni fundarins er að ákveða næstu skref í Idlib. Sýrlendingar, Íranar og Rússar vilja helst teppasprengja svæðið og senda innrásarlið til að knésetja síðustu hersveitir uppreisnarmanna. Loftárásir eru þegar hafnar.

Tyrkir hafa hins vegar mikilla hagsmuna að gæta. Innrás í Idlib myndi hafa í för með sér mikla hörmungar og óttast Erdogan Tyrklandsforseti að flóttamenn streymi þaðan yfir landamærin til Tyrklands. Honum er því mikið í mun að leysa málið við samningaborðið og sannfæra uppreisnarhópa um að leggja niður vopn.

Bandaríkjamenn hafa engan trúverðugleika við það samningaborð og yfirlýsingar þeirra um yfirvofandi efnavopnahernað líklega ætlaðar til að hafa áhrif á ferlið. Bandaríkin hafa áður hótað íhlutun ef slíkum vopnum yrði beitt og með þessu tali um efnavopn eru þarlend stjórnvöld í raun að minna á hernaðarmátt sinn.


Tengdar fréttir

Óttast um almenna borgara í Idlib

Staffan de Mistura, erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands, hefur varað við því að slæmt ástand gæti skapast geri stjórnarher Sýrlands og bandamenn þeirra árás á Idlib, síðasta vígi uppreisnarmanna í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×