Innlent

Drógu kálfafulla langreyði í land

Andri Eysteinsson skrifar
Kálfur langreyðarinnar sést fyrir miðri mynd.
Kálfur langreyðarinnar sést fyrir miðri mynd. HARD TO PORT
Þýsku samtökin Hard to Port, sem hafa það að markmiði að stöðva hvalaveiðar við Ísland, segja í tilkynningu að hvalveiðimenn hafi veitt kálfafulla langreyði laust fyrir klukkan 17.00 í dag.

Arne Feuerhahn, framkvæmdastjóri samtakanna, var staddur í Hvalfirði þegar starfsmenn Hvals hf. drógu hvalinn á land.

Mynd af verknaðinum hefur verið deilt víða á samskiptamiðlinum Twitter en samtökin birtu færslu þar sem þau vöktu athygli á framferði starfsfólks.

Færsluna má sjá neðst í fréttinni.

„Þegar starfsfólkið skar á hvalinn datt fóstrið úr líkama móðurinnar, það var alveg hræðilegt að verða vitni að þessu,“ segir Feuerhahn í tilkynningunni.

Starfsfólk Hvals Hf fjarlægðu fóstrið og að því er fram kemur í tilkynningu frá Hard to Port var það auðsjáanlega hrætt um að fóstrið myndi nást á ljósmynd.

Samtökin Reykjavík Whale Save efndu til samstöðuvöku fyrir Langreyðar við hvalstöðina í Hvalfirði í kvöld klukkan 20:30, hún mun standa yfir fram til klukkan 23:30.

Hvalveiðar Íslendinga hafa verið harðlega gagnrýndar jafnt hér heima sem og erlendis og virðist ekki lát ætla að verða á því.

Erlendir fjölmiðlamenn hafa birt myndir og myndbönd frá Hvalfirði í kvöld og má sjá eitt þeirra hér að neðan.




Tengdar fréttir

Vaka fyrir hvali

Samtök sem kalla sig Whale Save gangast í kvöld fyrir samstöðuvöku gegn veiðum á langreyðum við hvalstöðina í Hvalfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×