Erlent

„Hræddur og sakbitinn“ og steig þess vegna ekki fram fyrr

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Leikarinn Jimmy Bennett.
Leikarinn Jimmy Bennett. Vísir/GEtty

Leikarinn Jimmy Bennett, sem sakaði ítölsku leikkonuna Asiu Argento um kynferðisofbeldi, segir skömm og hræðslu hafa valdið því að hann steig ekki fram fyrr. Þetta kemur fram í fyrstu yfirlýsingu Bennett vegna málsins sem hann sendi fjölmiðlum vestanhafs í gær.

Sjá einnig: Argento þvertekur fyrir að hafa brotið á Bennett

„Ég reyndi að leita réttlætis á skynsamlegan hátt sínum tíma vegna þess að ég var ekki tilbúin til að takast á við afleiðingar þess að frásögn mín yrði gerð opinber,“ segir í yfirlýsingu Bennetts.

„Á þessum tíma fannst mér að ég ætti að skammast mín fyrir að vera í þessari stöðu sem karlmaður í samfélagi okkar. Mér fannst ólíklegt að fólk myndi skilja atvikið sem átti sér stað frá sjónarhóli stráks á táningsaldri.“

Asia Argento á Cannes-verðlaunahátíðinni í maí síðastliðnum. Vísir/getty

Bandaríska dagblaðið The New York Times greindi frá því í byrjun vikunnar að Argento hefði greitt Bennett 380 þúsund Bandaríkjadali, eða um 41 milljón íslenskra króna, fyrir að þegja um meint kynferðisbrot.

Bennett heldur því fram að Argento hafi brotið á sér kynferðislega á hótelherbergi í Kaliforníu árið 2013 þegar hann var 17 ára. Samræðisaldur í ríkinu er 18 ára. Á meðal gagna málsins er svokölluð „sjálfa“ af Argento og Bennett þar sem þau sjást liggja uppi í rúmi. Slúðurmiðillinn TMZ birti myndina í gær en fram að því hafði henni aðeins verið lýst í fréttum um málið.

Argento, sem er einn aðalforsprakki #MeToo-hreyfingarinnar, hefur þvertekið fyrir að hafa átt í nokkurs konar kynferðislegu sambandi við Bennett. Hún viðurkenndi þó í yfirlýsingu sinni að hafa greitt honum umrædda fjárhæð.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.