Erlent

HIV-faraldur í Massachusetts vegna sprautunotkunar

Sylvía Hall skrifar
Lyfið fentanyl er talið vera ástæða faraldursins, en neysla þess kallar á að notendur sprauti sig oftar.
Lyfið fentanyl er talið vera ástæða faraldursins, en neysla þess kallar á að notendur sprauti sig oftar. Vísir/Getty
HIV-faraldur sem gengur yfir Massachusetts er talinn vera vegna sprautunotkunar, en yfir 129 tilfelli hafa greinst frá árinu 2015. Voru það að stórum hluta eiturlyfjanotendur sem notuðust við sprautur og deildu þeim sín á milli, en aukin notkun á lyfinu fentanyl er talið vera ein helsta ástæða þessa.

Yfir sjö ný tilfelli hafa bæst við frá því að rannsóknarmenn í fylkinu greindu frá niðurstöðum sínum, en þeir rannsökuðu fjölda HIV-smita frá árinu 2015 til júnímánaðar 2018 í borgunum Lowell og Lawrence. Þá höfðu 122 tilfelli greinst á tímabilinu.

Aukning í HIV-smitum hefur verið mikið áhyggjuefni á meðal eiturlyfjanotenda, en fram til ársins 2010 hafði þeim farið fækkandi í Bandaríkjunum. Nú virðist tíðnin fara hækkandi og þá einna helst í þeim hópi sem hafði ekki verið einblínt á áður, það eru hvítir eiturlyfjanotendur í dreifbýlum. Vísindamenn óttast að sama þróun sé að eiga sér stað í öðrum fylkjum. 

Þetta er annar faraldurinn sem tengist sprautunotkun og neyslu ópíóða frá árinu 2015, en í Scott-sýslu í Indiana voru yfir 200 tilfelli tengd sprautunotkun. Þá hafði neysla lyfsins oxymorphone náð mikilli útbreiðslu í sýslunni. 

Í Massachusetts er áhyggjuefnið þó fentanyl, og virðist neysla þess vera að aukast til muna í fylkinu. Neysla á fentanyl virðist valda því að notendur sprauta sig oftar yfir daginn sem er talið valda því að fíklar deili sprautum sín á milli og auka þeir þannig líkurnar á smiti.

Sjá frétt Buzzfeed News um málið.


Tengdar fréttir

Vara við hættunni vegna frétta af neyslu ungmenna

Landlæknisembættið varar við misnotkun á ávanabindandi lyfjum. Embættið kemur upplýsingunum á framfæri vegna frétta sem fluttar hafa verið af notkun ungmenna á lyfjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×