Erlent

Fyrrum sendiherra Vatíkansins kallar eftir afsögn Páfa

Andri Eysteinsson skrifar
Frans páfi hér með Kardinálanum McCarrick í september 2015. Tveimur árum áður á Frans að hafa frétt af kynferðisbrotum McCarrick.
Frans páfi hér með Kardinálanum McCarrick í september 2015. Tveimur árum áður á Frans að hafa frétt af kynferðisbrotum McCarrick.
Kaþólska kirkjan gengur nú í gegnum erfiða tíma. Um allan heim hefur mikið verið fjallað um kynferðisbrot presta, biskupa og annarra innan kirkjunnar sem hefur verið harðlega gagnrýnd.

Frans Páfi, sem nú er staddur í Írlandi þar sem hann til dæmis fundaði með þolendum kynferðisofbeldis, fordæmdi í vikunni öll kynferðisbrot af völdum kaþólsku kirkjunnar.

Nú kallar fyrrum háttsettur embættismaður innan Vatíkansins eftir afsögn Páfa.

Hinn ítalski erkibiskup, Carlo Maria Vigano, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sakar Frans Páfa um að hafa vitað af kynferðisbrotum bandaríska kardinálans Theodore McCarrick frá árinu 2013 en Frans samþykkti afsögn McCarrick í síðasta mánuði.

Reuters greinir frá því að Vatíkanið hafi neitað að tjá sig um ásakanirnar.

McCarrick var fyrsti kardínálinn í háa herrans tíð sem segir af sér en nefnd hafði komist að þeirri niðurstöðu að ásakanir um að hann hefði brotið á 16 ára gömlum dreng áttu við rök að styðjast,

Vigano segir í ellefu blaðsíðna yfirlýsingu sinni að hann hafi tjáð páfa að McCarrick væri stórfelldur kynferðisbrotamaður 23. Júní 2013.



„Frans verður að setja fordæmi fyrir þá kardinála og biskupa sem hylmdu yfir með McCarrick og segja af sér“ segir í yfirlýsingunni. 

Vigano var skipaður sendiherra Páfagarðs í Bandaríkjunum árið 2011 af Benedikt páfa XVI. en sagði af sér vegna aldurs árið 2016. Áður hafði hann gegnt sama hlutverki fyrir Páfagarð gagnvart Nígeríu.

Segi Páfi af sér yrði hann eingöngu þriðji páfinn síðan á 13.öld til að segja af sér og yrði hann annar páfinn í röð til að segja af sér en Benedikt XVI. sagði af sér vegna heilsu og aldur árið 2013. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×