Erlent

Heyra mátti upphaf skotárásarinnar í beinni útsendingu: „Allir voru grátandi og öskrandi“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skotárásin var gerð í Jacksonville í Flórída.
Skotárásin var gerð í Jacksonville í Flórída. Vísir/AP
Talið er að minnst fjórir séu látnir og sjö séu særðir eftir að árásarmaður hóf skotárás á tölvuleikjamóti í Jacksonville í Flórída í Bandaríkjunum í dag. Vitni segir að mikil ringulreið hafi skapast á vettvangi.

Lögreglan í Jacksonville staðfestir að árásarmaðurinn hafi látist í árásinni en óvíst sé hvort fleiri hafi átt þátt í henni.

Verið var að keppa í tölvuleiknum Madden 2018 og var mótinu streymt beint á netinu. Á myndbandi sem tekið var úr beinu útsendingunni og dreift hefur verið á samfélagsmiðlum má heyra þegar skothríðin hefst og mikil ringulreið skapast.

Biðlar lögreglan til allra í nágrenni við árásarstaðinn að halda sig eins langt í burtu frá staðnum og hægt er auk þess sem að allir sem kunni að vera í felum á árásarstaðnum hafa verið beðnir um að láta vita af sér svo lögregla geti sótt viðkomandi.

„Ég henti mér niður og skreið inn á baðherbergi,“ segir Ryen Alemon í samtali við CNN en hann varð vitni að árásinni. Hann segir að um 40-50 manns hafi verið samankomnir til að fylgjast með tölvuleikjamótinu.„Ég var þarna kannski í tíu mínútur og allt róaðist frekar fljótt en allir voru grátandi og öskrandi. Ég hljóp bara út og það voru allir hlaupandi út um allt,“ sagði Alemon við CNN.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×