Erlent

Rússar stefna á stærstu heræfingu sína í fjóra áratugi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá hersýningu nærri Moskvu. Æfingin í næsta mánuði verður sú stærsta frá því á sovéttímanum.
Frá hersýningu nærri Moskvu. Æfingin í næsta mánuði verður sú stærsta frá því á sovéttímanum. Vísir/EPA
Reiknað er með því að um 300.000 manns taki þátt í stærstu heræfingu Rússa frá tímum kalda stríðsins í næsta mánuði. Æfingin verður haldin í miðju og austanverðu Rússlandi en varnarmálaráðherra Rússlands líkir henni við stóra heræfingu sem var haldin árið 1981 og æfði árás á NATO-ríki.

Reuters-fréttastofan segir að um þúsund herflugvélar, tveir flotar rússneska sjóhersins og allar flugdeildir hans taki þátt í æfingunni sem fer fram dagana 11.-15. september. Sergei Shojgú, varnarmálaráðherra Rússlands, segir að herdeildir frá Kína og Mongólíu taki einnig þátt í æfingunni sem hefur hlotið nafnið „Vostok 2018“.

Sagði Shojgú að æfingin yrði sú stærsta frá Zapad-81 æfingu Sovétmanna árið 1981. Hluti af þeirri æfingu verði endurtekinn nú. Zapad-81 fól í sér æfingar fyrir ímyndaða árás á Atlantshafsbandalagið, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Vígbúnaður Rússa hefur aukist í takti við vaxandi spennu á milli þeirra og NATO-ríkja undanfarin ár. NATO-ríkin hafa einnig bætt í herafla sinn nærri landamærum Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×