Erlent

Stal mannlausri flugvél og brotlenti

Kjartan Kjartansson skrifar
Reykur stígur upp frá Ketron-eyju í Puget-sundi í nótt.. Ekki er ljóst hvort að maðurinn sem flaug vélinni hafi lifað brotlendinguna af.
Reykur stígur upp frá Ketron-eyju í Puget-sundi í nótt.. Ekki er ljóst hvort að maðurinn sem flaug vélinni hafi lifað brotlendinguna af. Vísir/AP
Starfsmaður flugfélags stal tómri farþegaflugvél og brotlenti henni á eyju nálægt Tacoma-flugvelli í Seattle í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Loka þurfti flugvellinum vegna atviksins. Ekki er ljóst hvort maðurinn lifði brotlendinguna af.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að tvær F15-orrustuþotur hafi elt flugvélina þangað til hún brotlenti á eyju í Puget-sundi.

Maðurinn er sagður 29 ára gamall og frá svæðinu. Washington Post segir að maðurinn sé flugvirki og að hann hafi verið í sjálfsvígshugleiðingum.

Lögreglustjórinn í Pierce-sýslu sagðist ekki telja að uppákoman tengdist hryðjuverkum. Svo virtist sem að maðurinn hafi stolið vélinni sér til gamans en að það hafi farið „hræðilega úrskeiðis“.

Flugvélin var af gerðinni Bombardier Dash 8 á vegum Horizon Air-flugfélagsins. Myndbönd sem deilt var á samfélagsmiðlum sýndu vélina á háskalegu flugi í nágrenni flugvallarins.

Á upptöku af samskiptum mannsins við flugturn er hann sagður hafa hljómað „áhyggjulaus og villtur“. Hann hafi meðal annars talað um að fara í útsýnisflug yfir Ólympusarfjöll í Washington-ríki og að fara í heila veltu áður en hann lenti og „segði þetta gott“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×