Erlent

Flugvélaþjófurinn sagðist þurfa litla hjálp því hann hefði spilað tölvuleiki

Birgir Olgeirsson skrifar
Við Tacoma-flugvöllinn í Seattle í Bandaríkjunum.
Við Tacoma-flugvöllinn í Seattle í Bandaríkjunum. Vísir/EPA
Maðurinn sem stal mannlausri farþegaþotu á Tacoma-flugvelli í Seattle og brotlenti henni síðan hafði starfað fyrir Horizon Ari-flugfélagið í þrjú ár. Flugfélagið var eigandi farþegaþotunnar en starf mannsins fólst í því að færa flugvélar til á flugvellinum, hreinsa þær og raða töskum í farangursgeymslu.

Maðurinn stal flugvélinni síðla kvölds á föstudag sem varð til þess að loka þurfti flugvellinum og voru tvær herþotur sendar á eftir honum til vonar og vara.

Eftir að hafa sýnt af sér ótrúlega tilburði við að stjórna vélinni, meðal annars með því að fljúga henni í heilan hring, brotlenti vélin á Ketron-eyju í Puget-sundi eftir um klukkustundar flug.

Fjölmiðlar hafa fengið afrit af samskiptum mannsins við flugumferðarturninn á Tacoma-flugvellinum en þar má sjá að maðurinn kom sjálfum sér þó nokkuð á óvart með því að hafa tekist að stela farþegaþotunni og koma henni á loft. Á samskiptunum má sjá að maðurinn hafði ekki fulla þekkingu á stjórnkerfi vélarinnar en hafði ekki í hyggju að skaða neinn og bað að lokum ástvini sína afsökunar og bætti við að hann væri „brotinn gaur“.

Flugmálayfirvöld hafa upplýst að maðurinn hafði fullan aðgang að vélinni sem starfsmaður flugfélagsins og var því með fullt leyfi til að vera í henni. Hann hafði hins vegar ekki leyfi til að taka vélina ófrjálsri hendi og fljúga henni burt.

Talið er að maðurinn hafi verið einn í vélinni en það hefur þó ekki verið staðfest og fer bandaríska alríkislögreglan FBI með rannsókn málsins.

Um var að ræða 76 sæta farþegaþotu af gerðinni Bombardier Q400.

Á meðal þess sem fór á milli mannsins og flugumferðarstjóra voru upplýsingar um mögulega lendingarstaði, afsakanir á hegðun sinni og furðulegar athugasemdir.

„Þarf ekki það mikla hjálp“



Flugumferðarstjórarnir spurðu hvort hann þarfnaðist hjálpar við að fljúga vélinni en maðurinn var snöggur til með eftirfarandi svar:

„Nei, ég meina, ég þarf ekki það mikla hjálp. Ég hef spilað tölvuleiki áður.“

Hann hafði þó takmarkaða þekkingu á vélinni og viðurkenndi að mun meira eldsneyti hefði farið í flugtakið en hann gerði ráð fyrir og sagði sumar leiðbeiningarnar sem honum voru veittar virka sem bull og vitleysa fyrir honum.

Þegar honum var bent á að reyna að lenda vélinni á flugstöð bandaríska hersins við McChord Field svaraði maðurinn: „Æi, maður. Þessir gaurar mundu örugglega tuska mig til ef ég reyndi að lenda þar. Þeir eru örugglega líka með loftvarnabyssur.“

Flugumferðarstjórarnir báðu hann eitt skipti um að beygja til vinstri en þá svaraði maðurinn:

„Þetta er örugglega lífstíðarfangelsisvist fyrir mig, er það ekki? Jæja, ég vona allavega að það sé þannig fyrir mann eins og mig.“

Á meðal annarra samskipta mannsins má nefna:

  • Að hann bað um hnit að háhyrningi sem hafði borið dauðan kálf á bakinu og hafði verið fjallað um í fréttum í síðustu viku.
  • Hann lýsti útsýninu og talaði um að fara til Washington-ríkis til að skoða Ólympíufjöllin.
  • Velti fyrir sér hvort að Alaska Airlines myndu ráða hann í vinnu ef hann næði að lenda vélinni heilli.

Virtist ekki búast við að sleppa lifandi

Í samskiptunum eru að finna nokkrar vísbendingar um að maðurinn taldi sig ekki eiga eftir að lenda vélinni heilli, hvað þá að komast frá því lifandi. Hann talaði til dæmis um að velta vélinni heilan hring áður en hann færi að segja þetta gott.

Þegar hann var beðinn um að lenda vélinni svaraði hann:

„Ég veit það ekki maður. Mig langar það ekki. Ég var svolítið að vona að þetta væri málið, þú veist.“

Hann sagði einnig: „Ég á marga að sem þykir vænt um mig. Þetta á eftir að valda þeim vonbrigðum. Mig langar að biðja þau öll afsökunar. Ég er bara brotinn gaur, með nokkrar lausar skrúfur. Vissi það í raun aldrei fyrr en nú.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×