Erlent

Tugir slösuðust á spænskri tónlistarhátíð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hið minnsta fjórir eru alvarlega slasaðir.
Hið minnsta fjórir eru alvarlega slasaðir. Twitter
Tugir tónleikagesta eru slasaðir eftir að viðarbryggja hrundi í borginni Vigo á vesturströnd Spánar. Bryggjan er sögð hafa verið drekkhlaðin af fólki og svo virðist sem hún hafi gefið sig undan þyngd mannfjöldans. Fólkið hafði verið að njóta rapptónleika sem voru hluti af tónlistarhátíðinni O Marisquiño, sem fram fór í borginni um helgina.

Breska ríkisútvarpið segir að rúmlega 130 einstaklingar hafi verið fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar, sumir vegna líkamlegra meiðsla en aðrir leituðu sér áfallahjálpar. Ekki er vitað til þess að neinn hafi látið lífið í slysinu.

Vitni lýsa ringulreiðinni sem skapaðist þegar bryggjan féll í sjóinn og hundruð tónleikagesta reyndu að klöngrast upp á þurrt land. Fjöldi björgunarfólks var sendur á vettvang, þar á meðal voru kafarar sem tryggðu að enginn hefði festst undir bryggjunni.

Rapparinn Rels B, sem staðið hafði á sviðinu þegar slysið varð, hvatti alla þá sem höfðu áhyggjur af aðstandendum sínum til að setja sig í samband við neyðarþjónustu tónlistarhátíðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×