Innlent

Fyrri eldgos í Öræfajökli mun öflugri en áður var talið

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Gögn hafa sýnt að eldgosið í Öræfajökli árið 1362 var mun öflugra en áður var talið. Hópur jarðvísindamanna er nú við rannsóknir í kringum jökulinn þar sem sýnum er safnað. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort hækka eigi viðbúnaðarstig vegna hugsanlegs eldgoss í jöklinum.

Í lok júlí sögðum við frá því að vísindamenn skoði hvort hækka eigi viðbúnaðarbúnaðarstig vegna hugsanlegs eldgos í Öræfajökli en jökullinn hefur sýnt af sér óeðlilegra hreyfingar í rúmt ár, eftir að hafa legið í dvala í ár hundruð.

Eldfjallavárhópur frá Háskóla Íslands vinnur nú að rannsóknum við jökulinn og segir jarðfræðingur það áríðandi að gögnum sé safnað áður en næsta gos verður.

„Við erum að eltast við síðast liðin gos. Það var gos 1727 sem er nýjasta gosið og svo 1362. Þetta eru einu gosin á sögulegum tíma,“ segir Helga Kristín Torfadóttir, jarðfræðingur, sem vinnur að mastersritgerð um Öræfajökul.

Greind eru efni í bergi og gjósku og hraunmolum er safnað þar sem sýni úr kristölum eru efnagreind. Vísindahópurinn gerði í gær uppgötvun sem ekki hefur komið fram áður.

„Við fundum gígana í gær frá gosinu 1727 og þeir hafa aldrei verið skoðaðir eða af einhverri vitneskju verið rannsakaðir,“ segir Helga.

Áður hafði verið talið að þeir hefur orðið undir jökli í tímanna rás en svo reyndist ekki vera. Helga segir að eldgosið 1727 hafi svipað til gossins á Fimmvörðuhálsi árið 2010.

„Þetta eru mjög ferskir gígar og þeir hafa kristala sem hægt er að rannsaka betur,“ segir Helga.

Til að mynda getur samsetning dýpis, hita og þrýstings í kristölum, sem leynast í hraunmolunum, sagt til um hvernig kvikan hreyfist í eldstöðinni undir jöklinum.

Vísindahópurinn hefur einnig unnið að því að endurgera gosmökkinn sem fylgdi eldgosinu 1362 og hafa gögn sýnt að gosið þá var mun öflugra en áður var talið. Því til rökstuðnings segir Helga að öskulagið, næst upptöku gossins, hafi verið talið um hálfur metri að þykkt en reyndist þrír metrar að þykkt. Hún segir að þar sem kvika er að hreyfa sig undir jöklinum gefi ástæðu til þess að varan á varðandi eldgos næstu árin.

„Þetta er mjög flókið fjall og langt fyrir utan rekið þannig að þegar jarðskjálftar koma í svoleiðis fjall þá er pottþétt kvika á ferðinni,“ segir Helga.

Helga Kristín

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×