Erlent

Neitað um ríkisborgararétt eftir að hafa hafnað handabandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Parið sóttist eftir því að fá ríkisborgararétt og búa í borginni Lausanne, en því var hafnað.
Parið sóttist eftir því að fá ríkisborgararétt og búa í borginni Lausanne, en því var hafnað. Vísir/Getty
Múslimsku pari hefur verið neitað um svissneskan ríkisborgararétt eftir að hafa hafnað því að taka í hönd viðtalstakenda af gagnstæðu kyni þegar þau sóttu um ríkisborgararétt.

Parið átti einnig í erfiðleikum með að svara spurningum frá viðtalsaðilum af öðru kyni en þau voru sjálf.

Svissnesk yfirvöld sögðu í yfirlýsingu að tilvonandi ríkisborgarar yrðu að vera tilbúnir að aðlagast svissnesku samfélagi og sýna fram á að þeir væru tilbúnir að tengjast Sviss sterkum böndum. Auk þess þyrftu þeir að virða lög og reglur landsins.

Gregoire Junod, borgarstjóri Lausanne, hvar parið sótti um ríkisborgararétt, sagði að þrátt fyrir að trúfrelsi ríkti í landinu þá „stæðu trúarlegar athafnir ekki fyrir utan lögin.“

Parið var ekki spurt út í trú sína í viðtalinu, en viðtalsaðilar sögðu að auðséð hefði verið hvaða trú parið aðhylltist. Yfirvöld lögðu mikla áherslu á að halda því til haga að parinu var ekki hafnað á grundvelli trúar, heldur sökum skorts á virðingu fyrir jafnrétti kynjanna.

Svipað mál kom upp í landinu árið 2016, þegar tveimur táningsdrengjum var gert að taka í hönd kennara síns fyrir og eftir skóla, en áður höfðu þeir fengið undanþágu frá reglu skólans, sem sagði til um að allir nemendur skyldu heilsa kennara sínum og kveðja hann með handabandi. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×