Lífið

„Hér er ekkert lastabæli“

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir og Þórsteinn Sigurðsson skrifar
Svanur og Tindur á Víðinesi.
Svanur og Tindur á Víðinesi.
Þann 15. desember 2017 fluttu fyrstu íbúarnir í Víðines, tilraunaverkefni fyrir heimilislausa á vegum Reykjavíkurborgar. Nú búa þar um fimmtán manns. Þeirra á meðal Svanur og Tindur Gabríel.

Svanur hafði áður búið í gömlum húsbíl á tjaldsvæðinu í Laugardal. Tindur Gabríel hefur síðustu sjö ár nýtt sér gistiskýlið á Lindargötu.

Íbúar greiða 50 þúsund krónur á mánuði í leigu og þurfa að ganga vel um sameiginlegt eldhús og baðherbergi. Þá er skilyrði að þeir sem þarna búa hafi aðgang að bíl eða séu sjálfbjarga um ferðir til og frá staðnum en nokkurra kílómetra gangur er í næsta strætóskýli. Einu sinni á dag býður velferðarsvið Reykjavíkur upp á ferðir til borgarinnar, fram og til baka.

Tindur Gabríel var í gistiskýlinu í sjö ár áður en hann kom í Víðines.
Vilja vera með hænur

Svanur og Tindur Gabríel sitja fyrir utan Víðines og sleikja sólina. Það er bjart yfir og stillt. Einhvern tímann hafa skrautbeð prýtt stæðið, nú blandast skrautblómin villigróðri ýmiss konar. Ekki langt frá eru kartöflugrös. Tindur Gabríel setti niður útsæði fyrir skömmu. 

„Nú þegar hann er kominn í sveitina þá hugsar hann ekki um annað en sveitastörf,“ segir Svanur. „Og hann vill líka vera með hænur,“ segir hann og Tindur Gabríel kinkar kolli. „Ég setti niður kartöflur fremur seint, við sjáum hvernig það fer. Ég á von á því að það spretti eitthvað af þessu. Ég myndi líka vilja setja niður rauðrófur og halda hænur. Ég kann vel við sveitalífið. Einu sinni ætlaði ég mér að verða bóndi en það fór út um þúfur,“ segir hann.

Svanur brá sér til borgarinnar í byrjun vikunnar. Hann mætti í Ráðhús Reykjavíkur sem fulltrúi þeirra sem búa í úrræðum fyrir heimilislausa og sóttist eftir því að fá að sitja aukafund borgarráðs um málefni hópsins. En fékk ekki. Á fundinum voru samþykktar átta tillögur meirihlutans um aðgerðir, meðal annars að útvega lóðir fyrir 25 smáhýsi. Þá var samþykkt tillaga fulltrúa Sósíalistaflokksins um að kanna þarfir hópsins.

Svanur og hundarnir.
Dómharka og yfirlæti

„Við fengum ekki að fylgjast með. Mér finnst skrýtið að mega ekki hlýða á eða ávarpa fundinn Þegar umfjöllunarefnið er við. Það er oft fjallað um okkur án þess að við höfum nokkuð um það að segja,“  segir Svanur og segir oft rætt um heimilislausa af dómhörku og yfirlæti. Þá sé þeim oft ætlaður ákveðinn lífsstíll sem einkennist af löstum og óþrifnaði. „Hér er ekkert lastabæli,“ segir hann og býður í heimsókn.

„Víðines stóð autt um árabil, þar var rekið elliheimili. Þangað til það var nýtt fyrir hælisleitendur,“ segir Svanur. „Þetta er mjög vistlegt. Húsnæðið var tekið í gegn fyrir um 90 milljónir. Hér hafa verið settar nýjar eldavélar, þvottavélar og frystar. Við eldum matinn okkar sjálfir, þvoum þvott og höfum heimilisfrið,“ segir hann og þeir Tindur Gabríel sýna vistarverurnar.

Húsnæðið er þrifalegt og bjart. Í eldhúsinu kassar af grænmeti og matreiðslubók um franska matargerð.

Hvað finnst þér gott að elda, Svanur?

„Ég elda eitthvað einfalt og fljótlegt, oft nota ég örbylgjuofninn og elda smárétti. Ég nenni ekki að standa í flókinni eldamennsku. Það er einn hér sem fer oft í Samhjálp og kemur með mat þaðan til okkar. Það væsir ekki um okkur.“





Víðines er stór og myndarleg bygging. Þar var eitt sinn elliheimili. Þá bjuggu þar hælisleitendur áður en húsnæðið var nýtt í tilraunaverkefni fyrir heimilislaust fólk.
Þannig að þið eigið góða að?

„Já, það eru margir liðlegir í að aðstoða okkur. En svo hjálpum við okkur líka sjálfir og kaupum mat og fleira.“

Herbergi Tinds Gabríels er hlýlegt. Hann hefur inni hjá sér stærðarinnar sjónvarp, fallegar plöntur og reiðhjól. Bókahillan ber þess vott að hann er víðlesinn. „Ég elska blóm, þau hreinsa svo andrúmsloftið. Æi, mér finnst þetta svo notalegt þótt herbergið sé lítið. Ég þyrfti aðeins stærra herbergi. Ég er mest hér og fer ekkert í bæinn. Þar er enda ekkert að hafa nema leiðindi,“ segir hann og sest á rúmstokkinn.

Les Platón og Aristóteles

Hvernig eyðir þú tímanum hér?

„Ég horfi mest á Netflix. Þáttaraðir á borð við Merlín og Orange Is the New Black eru í uppáhaldi. Ég hef líka mikinn áhuga á bókmenntum. Ég les ljóð og heimspekirit. Ég er núna að glugga í Ríkið eftir Platón. Ég hef einnig gaman af Aristótel­esi. Ég pæli í öllu og leiðist ekkert hér í sveitinni. Það er gott andrými hér. Hér eru líka fínir strákar og stelpur og það er ró yfir núna. Það var einn órólegur hér og það markaði lífið,“ segir Tindur Gabríel frá.

Tindur Gabríel segist finna mikinn mun á líðan sinni í Víðinesi.

„Ég var í gistiskýlinu á Lindargötu í heil sjö ár. Ég meiddist þar. Ég ætla að fara í mál við Reykjavíkurborg. Pólskur vaktmaður þar mölvaði á mér höndina,“ segir hann og strýkur yfir hnúð á innanverðum úlniðnum sem er merki um að brotið hafi verið mjög slæmt.

Tindur Gabríel? Það er óvanalegt nafn fyrir mann á þínum aldri?

„Ég var skírður Ingimundur Valur Hilmarsson, ég breytti því í Tind Gabríel. Ekki út af einhverju misjöfnu. Ég hafði verið átján mánuði edrú og valdi mér þetta nafn út af andlegum draumförum sem ég hafði,“ útskýrir hann og segir nýtt nafn hafa veitt sér styrk.

Hann segist heimilislaus vegna erfiðra aðstæðna. „Ég er úr Reykjavík og alinn upp í borginni. Móðir mín drakk sig í hel. Faðir minn drakk líka. Hann fékk krabbamein og dó á Vífilsstaðaspítala. Ég á son og eitt afabarn. Sonur minn er bókasafnsfræðingur á Borgarbókasafninu. Ég er stoltur af honum og afabarninu,“ segir hann um líf sitt.

Íbúar elda sér sjálfir í nýuppgerðum eldhúsum í Víðinesi.
Tók Kleó að sér fyrir lífstíð

Herbergi Svans er öllu stærra. Honum fylgja tveir hundar, Kleó og hvolpurinn Jana. „Kleó hefur fylgt mér í sex ár. Ég elska hana  og hún elskar líka mig,“ segir Svanur ástúðlega þegar hann opnar inn í herbergið sitt. Kleó flaðrar upp um hann og það gerir líka lítill hvolpur. „Þetta er Jana. Ég ætla að halda henni,“ segir hann.

„Ég var á tjaldsvæðinu í Laugardal áður en ég kom hingað. Þar áður í Hafnarfirði. Ég gat ekki verið með Kleó í íbúðinni sem ég leigði þar. Leigusalinn var að gefast upp á sífelldum kvörtunum vegna hundsins. Ég þyrfti að losa mig við hundinn. Það myndi ég aldrei gera. Ég tók Kleó að mér fyrir lífstíð. Og nú hefur Jana bæst í hópinn. Ég fór. Ég reif út aftursætin í bílnum til að sofa í. Og þannig byrjaði það. Ég var orðinn heimilislaus. Ég gat svo ekki sofið almennilega í jeppanum og keypti mér húsbílinn og settist að í Laugardal. Nú er ég kominn hingað,“ segir hann.

Hann horfir á Netflix eins og Tindur Gabríel. „Ég er að safna mér fyrir sjónvarpi. Ég hef ýmis áhugamál. Ég myndi vilja geta ferðast. Það hefur reyndar verið leiðinlegt veður. Því stytti ég mér stundirnar og horfi á bíómyndir,“ segir hann.

Hafa stjórnmálamenn komið hingað og heimsótt ykkur?

„Þeir komu hingað fyrir kosningarnar. Það var aðallega stjórnarandstaðan, Sjálfstæðisflokkurinn og Flokkur fólksins. Eyþór Arnalds hefur oft komið hingað. Samfylkingin hefur ekki komið að mér vitandi,“ segir hann.  En hvað um það að Víðines er heldur afskekkt?

„Maður getur líka verið einmana í borg. Eins og Tindur veit,“ segir hann og horfir til félaga síns. „Maður fer í bæinn í stressið og vitleysuna og kemur svo aftur hingað. Tilfinningin er svo góð. Kannski hentar þetta ekki öllum. En okkur þykir lífið gott hér,“ segir Svanur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×