Erlent

Fimm létust í flugslysi í Kaliforníu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Brak vélarinnar sem hrapaði.
Brak vélarinnar sem hrapaði. Vísir/AP
Fimm létust í í suðurhluta Kaliforníuríkis í gær þegar flugvél hrapaði á bílastæði skammt frá verslunarmiðstöð í borginni Santa Ana. Vélin var af gerðinni Cessna 414.

Sjónarvottar hafa greint frá því að flugvélin hafi flogið lágt yfir borginni en skyndilega tekið dýfu þar sem hún hrapaði til jarðar og lenti á fjórum kyrrstæðum bílum fyrir utan verslunarmiðstöðina. Allir sem voru um borð í vélinni létust en engan sakaði á jörðu niðri.

Samkvæmt flugmálayfirvöldum á svæðinu sendi flugmaður vélarinnar út neyðarkall áður en vélin hrapaði um einum og hálfum kílómetra frá næsta flugvelli, John Wayne flugvellinum. Flugmaðurinn gaf ekki skýringu á hvers vegna hann hefði sent neyðarkallið út. Ekki er ljóst hvað leið langur tími frá því neyðarkallið var sent út og þar til vélin hrapaði.  

Nokkrum vegum sem leiddu að verslunarmiðstöðinni var lokað í kjölfar slyssins. Rannsókn á slysinu hefur verið hafin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×