Erlent

Auðjöfur hyggst greiða allar sektir vegna búrkubannsins

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Rachid Nekkaz er franskur auðjöfur af alsírskum uppruna. Hann hyggst framvegis greiða allar sektir kvenna vegna búrkubannsins.
Rachid Nekkaz er franskur auðjöfur af alsírskum uppruna. Hann hyggst framvegis greiða allar sektir kvenna vegna búrkubannsins. Vísir/ap
Franski auðjöfurinn Rachid Nekkaz ætlar að greiða allar sektir sem konum í Danmörku er gert að greiða fyrir að hafa brotið lög sem banna fólki að hylja andlit sitt í almannarýminu í Danmörku.

Umdeildu lögin tóku gildi fyrir rúmri viku. Konur sem klæðast búrku eða niqab í Danmörku gætu átt á hættu að vera sektaðar. Bannið nær einnig yfir grímur, húfur sem hylja andlit og gerviskegg. Sektin hljóðar upp á tæpar 16.500 íslenskar krónur en gerist einstaklingur ítrekað brotlegur við lögin gæti hann hlotið sekt upp á tífalda þá upphæð.

Á þriðja degi búrkubannsins var fyrsta konan sektuð fyrir að hylja andlit sitt. Hún er 28 ára gömul og var stödd í verslunarmiðstöð í norðurhluta Kaupmannahafnar þegar lögreglan hafði afskipti af henni og sektaði hana.

Nekkaz segir að búrkubannið sé mannréttindabrot og að konur eigi að fá að velja sinn klæðnað sjálfar.vísir/getty
Konan þarf þó ekki að borga sektina sjálf því franski auðjöfurinn Rachid Nekkaz, sem er af alsírskum uppruna, er boðinn og búinn að standa straum af kostnaðinum í nafni mannréttinda og valfrelsis. Nekkaz ætlar framvegis að borga allar sektir fyrir danskar konur sem brjóta gegn búrkubanninu að því er fram kemur á vef politiken.

Telur að brotið sé á mannréttindum með banninu

„Ég verð í Kaupmannahöfn 11. september til að greiða allar sektir og ég mun gera það í hverjum mánuði. Þrátt fyrir að ég sjálfur sé á móti niqab mun ég alltaf verja mannréttindi alls staðar í heiminum; frelsi til að klæðast niqab og frelsi til að gera það ekki.“

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Nekkaz gerir þetta því Washington Post greindi frá því snemma árs 2016 að hann hafi greitt yfir þúsund sektir fyrir konur í Frakklandi eftir að sams konar lög tóku gildi þar í landi.


Tengdar fréttir

Skiptar skoðanir um búrkubann í Danmörku

Danskir fjölmiðlar taka ýmist afstöðu með eða á móti búrkubanninu svokallaða sem tók gildi í gær. Afar skiptar skoðanir eru um bannið að sögn íslensks fréttaljósmyndara sem starfar í Kaupmannahöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×