Erlent

Viðurkenna margfalt fleiri dauðsföll vegna Maríu á Púertó Ríkó

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona kemur fyrir skóm á torgi fyrir framan þinghúsið í San Juan, höfuðborg Púertó Ríkó í júní. Hvert par átti að tákna íbúa eyjunnar sem fórst af völdum Maríu.
Kona kemur fyrir skóm á torgi fyrir framan þinghúsið í San Juan, höfuðborg Púertó Ríkó í júní. Hvert par átti að tákna íbúa eyjunnar sem fórst af völdum Maríu. Vísir/EPA
Yfirvöld á Púertó Ríkó hafa nú viðurkennt að rúmlega 1.400 manns fórust af völdum fellibyljarins Maríu í fyrra. Það er margfalt meira mannfall en opinberar tölur hafa sagt til um fram að þessu.

Upphaflega héldu yfirvöld á bandaríska yfirráðasvæðinu að 64 hefðu farist þegar María gekk yfir eyjuna í september í fyrra og vegna afleiðinga fellibyljarins. Nýja talan kemur fram í skýrsludrögum Bandaríkjaþings vegna óska um fjárveitingar til uppbyggingar á eyjunni.

Talsmaður ríkisstjórnar Púertó Ríkó segir að nýja matið sé raunhæft að opinberum tölum um mannskaða hafi þó enn ekki verið breytt. Beðið sé eftir niðurstöðum rannsókn George Washington-háskóla. Stjórnin hefur verið sökuð um að reyna að gera lítið úr mannskaðanum.

Talið er að margir hafi farist þegar rafmagnsleysi og skortur á nauðsynjum truflaði læknismeðferðir og fólk komst ekki á sjúkrahús. Sykursýki og blóðeitrun hafi orðið mörgum að aldurtila, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Innviðir Púertó Ríkó eru enn ekki komnir í samt lag nú þegar tæpt ár er liðið frá hamförunum. Rafmagni hefur ítrekað slegið út, þar á meðal á allri eyjunni nú síðast í apríl.

Niðurstöður rannsóknar sem birtar voru fyrr á þessu ráði og byggðist meðal annars á viðtölum við íbúa eyjunnar bentu til þess að allt að fleiri þúsund manns gætu hafa látið lífið af völdum fellibyljarins. Ekki var þó um nákvæma talningu að ræða heldur áætluðu rannsakendurnir aukningu í dánartíðni eftir Maríu og mátu út frá henni mögulegan fjölda látinna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×