Enski boltinn

Klopp íhugar það að vera með Sturridge í einkaþjálfun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Sturridge fagnar marki á móti Manchester United.
Daniel Sturridge fagnar marki á móti Manchester United. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, reynir nú að finna nýjar leiðir til að halda framherjanum Daniel Sturridge frá meiðslum.

Daniel Sturridge hefur staðið sig frábærlega með Liverpool-liðinu á undirbúningstímabilinu og hefur með því opnað fyrir sér leið inn í aðalliðið á nýjan leik.

Sturridge hefur aðeins verið í byrjunarliði Liverpool í samtals 23 deildarleikjum á síðustu þremur tímabilum og eftir enn eitt meiðslatímabilið í fyrra þá voru flestir búnir að afskrifa framtíð hans á Anfield.

Enski framherjinn ætlaði hinsvegar að berjast fyrir sæti sínu í liðinu og það hefur hann gert með sannkölluðum glæsibrag.  

Sturridge kom inná sem varamaður í síðasta leik á móti Manchester United og skoraði þá um leið eftir sendingu frá Xherdan Shaqiri.

Klopp hrósaði Daniel Sturridge eftir leikinn sem fram fór fyrir framan meira en hundrað þúsund áhorfendur á Michigan leikvanginum.





„Daniel er afburðafótboltamaður. Ef hann er heill þá mun hann fá hlutverk í liðinu,“ sagði Jürgen Klopp eftir leikinn en BBC segir frá. Klopp talaði einnig um að hann væri tilbúinn að setja  Sturridge í einkaþjálfun til að reyna að halda honum heilum.

„Ég er algjörlega opinn fyrir því að setja hann í sérþjálfun,“ sagði Klopp.

Það þýddi að framherjinn myndi ekki æfa eins og félagar hans í liðinu því reynslan af því hefur ekki verið góð síðan að Jürgen Klopp settist í stjórastólinn á Anfield.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×