Enski boltinn

Luiz ánægður með Sarri og vill vera áfram

Arnar Geir Halldórsson skrifar
David Luiz
David Luiz vísir/getty
Brasilíski varnarmaðurinn David Luiz kveðst hæstánægður í herbúðum Chelsea eftir að Maurizio Sarri tók við stjórnartaumunum hjá Lundúnarliðinu af Antonio Conte.

Luiz kom lítið við sögu hjá Chelsea á síðustu leiktíð og þó meiðsli hafi átt sinn þátt í því virtist vera sem svo að dagar hans hjá Chelsea væru taldir. Það hefur þó breyst með komu Sarri.

„Ég elska hugmyndafræði Sarri. Við spilum hátt upp á vellinum og hann vill að við höldum boltanum innan liðsins. Það tekur alltaf tíma að aðlagast nýrri hugmyndafræði en það er undir okkur leikmönnum komið að vera fljótir að ná þessu,“ segir Luiz sem óttast ekki samkeppni um stöðu í byrjunarliðinu.

„Það er gott að hafa marga frábæra leikmenn; fleiri en bara þá ellefu sem byrja inná. Við höfum marga leikmenn sem geta verið í byrjunarliðinu og það er jákvæð samkeppni fyrir alla,“ segir Luiz. 

David Luiz kom fyrst til Chelsea árið 2011 og var hjá liðinu þar til sumarið 2014 þegar hann var keyptur til PSG fyrir 50 milljónir punda. Hann sneri hins vegar aftur til Chelsea fyrir 30 milljónir punda sumarið 2016 og lék lykilhlutverk í meistaraliði Chelsea 2016/2017.

„Ég kom aftur til Chelsea því hér vil ég vera. Ég kom aftur til að vinna ensku úrvalsdeildina og vinna fleiri titla með Chelsea svo ég er mjög ánægður hérna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×