Enski boltinn

Mourinho pirraður á aðgerðarleysi í glugganum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mourinho er ekkert sérstaklega ánægður í Bandaríkjunum
Mourinho er ekkert sérstaklega ánægður í Bandaríkjunum Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, er pirraður á aðgerðarleysi United í félagsskiptum í sumar.

Í byrjun sumars gekk United frá kaupum á Brasilíumanninum Fred frá Shakhtar Donetsk. Félagið hefur einnig keypt til sín unga varnarmanninn Diogo Dalot og markvörðinn Lee Grant sem mun líklega taka stöðu þriðja markvarðar liðsins.

Félagsskiptaglugginn lokar fyrr en venjulega í ár, fimmtudaginn 9. ágúst. Mourinho vill bæta við tveimur nýjum leikmönnum fyrir lokun gluggans en segist þó aðeins geta vonast eftir einum.

„Ég væri til í tvo leikmenn til viðbótar. En ég held ég fái ekki tvo. Það er möguleiki á að ég gæti fengið einn,“ saðgi Mourinho eftir 4-1 tap gegn Liverpool í vináttuleik í Bandaríkjunum í gærkvöld.

Fyrr í vikunni bárust fréttir af því að United hefði sent Leicester formlega fyrirspurn um miðvörðinn Harry Maguire. Leicester vill hins vegar ekki selja leikmanninn og munu forráðamenn liðsins gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda honum.

Toby Alderweireld og Yerry Mina eru einnig sagðir á óskalista Mourinho sem vill bæta við sig varnarmanni.

„Ég gaf félaginu lista með fimm nöfnum fyrir nokkrum mánuðum og ég bíð og sé hvort það er möguleiki að fá einn af þeim.“

Anthony Martial og Matteo Darmian eru báðir sagðir vilja fara frá félaginu og þá koma reglulega upp sögusagnir þess efnis að Paul Pogba gæti verið á förum.

Manchester United á opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar í ár gegn Leicester á Old Trafford föstudagskvöldið 10. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×