Enski boltinn

„Gott að barnið er heilbrigt en Martial á að vera kominn til baka“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Anthony Martial hefur lítið fengið að spila keppnisleiki fyrir United
Anthony Martial hefur lítið fengið að spila keppnisleiki fyrir United vísir/getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, gagnrýndi þá Anthony Martial og Antonio Valencia eftir tap United fyrir Liverpool í æfingaleik í Miami í gærkvöld

Anthony Martial byrjaði fyrstu tvo æfingaleiki Manchester United í æfingaferðinni í Bandaríkjunum áður en hann flaug til Frakklands til þess að vera viðstaddur fæðingu barns síns.

Mourinho samglaðst Frakkanum en fannst kominn tími til að hann snéri aftur til liðsins.

„Martial átti barn og það var fallegt og heilbrigt, Guði sé lof. En hann ætti að vera hér og hann er ekki hérna,“ sagði Mourinho við fréttamenn eftir 4-1 tapið í gærkvöld.

„Antonio Valencia kom til baka úr fríi og ég held hann hafi verið of lengi í fríi. Hann var ekki í formi þegar hann kom til baka og það eru komin upp meiðsli.“

Mourinho hefur einnig lýst yfir pirringi á aðgerðarleysi United í félagsskiptum í sumar.

United hefur leik í ensku úrvalsdeildinni 10. ágúst gegn Leicester á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×