Erlent

Snyrtivörurisa gert að greiða himinháar skaðabætur

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Johnson & Johnson segir að vörur sínar hafi staðist ítrekaðar prófanir síðustu áratugi.
Johnson & Johnson segir að vörur sínar hafi staðist ítrekaðar prófanir síðustu áratugi. Vísir/getty
Snyrtivörurisinn Johnson & Johnson þarf að borga 22 konum 4,7 milljarða dala í skaðabætur en konurnar héldu því fram að talkúm-vörur fyrirtækisins hafi valdið þeim krabbameini í eggjastokkum. Upphæðin nemur um 506 milljörðum íslenskra króna. Johnson & Johnson á yfir höfði sér um 9000 kærur vegna hins svokallaða barnapúðurs, sem er einkennisvara framleiðandans og er úr talkúmi.

Réttarhöldin tóku sex vikur og þar stigu konurnar og fjölskyldur þeirra fram og sögðu að notkun á barnapúðri og öðrum talkúmvörum í áraraðir hefði orsakað krabbamein í eggjastokkum.

Lögmenn þeirra héldu því fram að fyrirtækið hefði vitað frá áttunda áratugnum að asbest væri í púðrinu en hefði ekki varað viðskiptavini við mögulegri hættu sem kynni að fylgja notkun púðursins.

Talkúm er gert úr talki, steinefnategund sem finnst víða í jörðu nálægt asbesti. Bresk krabbameinssamtök hafa í mörg ár varað við notkun talkúm púðurs á kynfærasvæði vegna mögulegrar hættu á krabbameini, en tengingin hefur ekki verið rannsökuð þannig að hægt sé að fullyrða um slíkt.

Johnson and Johsnon neitaði að vörur þeirra hefðu nokkurn tímann innihaldið asbest og þvertóku fyrir að þær gætu valdið krabbameini. Fyrirtækið sagði dóminn vera mikil vonbrigði og hyggst áfrýja honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×